Prag

Veitingar

Notalegur veitingastaður hefur byrjað göngu sína á erfiðum krepputíma á erfiðum stað, þar sem mörg veitingahús hafa risið og hnigið og hrunið, við ofanvert Hlemmtorg. Þetta er Prag, lítil og vingjarnleg matstofa, þar sem áður var Rauði sófinn. Það er ánægjulegt að ljúka hringferð um veitingahús borgarsvæðisins með pistli um nýjan stað, sem hefur reynzt eiga erindi í erfiða samkeppni.

Húsakynnin eru lítillega breytt. Þau eru orðin hlýlegri og vistlegri en nokkru sinni fyrr. Innviðir eru úr tré, grænmáluðu hið neðra og gulleitu ofar. Grænt er höfuðlitur staðarins, í þéttum gluggapóstum, lömpum og pappírsþurrkum. Húsbúnaður er þungur og vandaður, en fjölbreytilegur, því að við hvert borð eru stólar með sínu lagi. Heklaðir dúkar eru undir diskum. Viðargólf er fallegt og á því eru dýr teppi. Skreytingar eru lítt breyttar.

Þjónusta er góð, svo sem alvanalegt er orðið. Úreltir eru orðnir fordómarnir um, að þjónustustörf hæfi ekki Íslendingum. Þvert á móti er óhætt að fullyrða, að þjónusta veitingahúsa sé að meðaltali hvergi betri í Evrópu en einmitt hér á landi, menntuð og alúðleg í senn.

Prag er um sinn aðeins opin á kvöldin, en verður um miðjan mánuðinn opin að nýju í hádeginu á virkum dögum, svo sem var til skamms tíma. Í tilboði dagsins er súpa og val milli tveggja fiskrétta á 890 krónur í hádeginu og 1180 krónur að kvöldi. Af stuttum fastaseðli kostar um 2715 krónur að borða þríréttað.

Vínlistinn er slakur, einkum í rauðvíni. Af hvítvínum eru helzt drykkjarhæf Mouton Cadet og Sancerre. Að þessu leyti minnir fátækt staðarins einmitt á veitingastaði hins forna Habsborgararíkis Evrópu, en matreiðslan minnir sem betur fer ekki mikið á þunga matreiðslu Vínarborgar, Budapest og Prag. Hún er íslenzk og góð.

Fyrst var borin fram ídýfa með gulrótar- og gúrkulengjum, stundum paprikulengjum. Með súpunni komu góðar brauðkollur, hvítar og volgar, svo og smjör í bolla. Súpur voru miklar að vöxtum og bragðsterkar að miðevrópskum hætti. Meðlæti með aðalréttum var yfirleitt staðlað.

Lauksúpa dagsins var of áfengisblönduð og eftir því bragðsterk. Spergilsúpa dagsins var bragðsterk og þykk, fremur góð. Fiskisúpa var karríkrydduð og vel rjómuð, með lúðu, laxi, hörpu og rækjum.

Laxakaka var frábær, betri en í beztu stöðum Parísar, létt og mjúk og ljúf, með fínlegri eggjasósu og ristuðu brauði. Hvítlauksristaðir sniglar voru frambærilegir.

Fiskurinn gekk vel. Steikt heilagfiski með camembert- ostasósu var hæfilega eldað og bragðgott, sömuleiðis gufusoðinn steinbítur með skelfisk- og sveppasósu. Ostbakaðir sjávarréttir voru góðir, rækja, harpa og lúða.

Buff Praha var hakkabuff úr góðu kjöti, létt og gott, með hrásalati, bakaðri kartöflu og þremur ídýfum, rauðrófumauki, sýrðri rjómasósu, steinseljusmjöri. Mjög góð var piparsteik með sama meðlæti og þrenns konar piparkornum, rauðum, grænum, svörtum. Steikin var í sama hágæðaflokki og í Þremur frökkum og Argentínu.

Sítrónu-ostakaka var góð, enda beint frá Osta- & smjörsölunni, sem hefur náð ágætum árangri á þessu sviði. Svonefndar Prag-pönnukökur voru góðar, bornar fram með ís og súkkulaði og of miklu af líkjör.

Jónas Kristjánsson

DV