Vont í Prag
Fáið ykkur ekki hefðbundinn tékkneskan mat í veitingasölum á borð við Zlatá Praha eða Francouzská í Prag. Soðið kjöt með stöppuhlunkum og stífri sósu er ekki gott og þjónustan er nánast sovézk. Þjóðleg matreiðsla tékknesk gengur ekki í Vesturlandafólk.
Til að skoða júgendstíl í aldargömlu menningarhúsi borgarinnar, Obecní Dùm, er betra að beygja til vinstri í anddyrinu og fara í kaffihúsið Café Nouveau, sem er næstum eins glæsilegt listaverk og matsalurinn Francouzská.
Gott í Reykjavík
Íslendingar með heimþrá þurfa þó sízt allra að svelta í þessari fallegu borg gróinnar menningar Mið-Evrópu. Reykjavík er fjörug og góð matstofa á bezta stað við aðalgötuna milli Karlsbrúar og Gamlabæjartorgs, stofnuð og rekin af Þóri Gunnarssyni ræðismanni. Þar fengum við okkur ágætan saltfisk að hætti Katalúna og þorsk dagsins, svo og fyrirtaks Miðjarðarhafssalat, en hin fræga fiskisúpa var of þykk.
Reykjavik, Karlova 20, s. 2222 1218, 1.400 kr. ísl.
Læsilegt Pravda
Tvö ágæt og vinsæl veitingahús með stæl eru við Parizská, sem liggur norður frá Gamlabæjartorgi. Annað er silfurmálmslegið og kuldalega nútímalegt Pravda, sem býður einn forrétt, einn aðalrétt og einn eftirrétt frá hverri af fjórum miðstöðvum matargerðarlistar í heiminum, ekki þó frá útgáfuborg samnefnds dagblaðs. Ítölsk og frönsk grænmetissalöt voru góð, svo og austurlenzkt kryddaður lax. Japönsk ananassúpa var fín.
Pravda, Parizská 17, s. 232 6203, 1.600 kr. ísl.
Barock fyrirsætur
Handan götunnar er Barock í sömu eigu, hefðbundnari útlits, með stórum ljósmyndum af frægum fyrirsætum á veggjum. Þar er margvíslegur Asíumatur eldaður að smekk Vesturlandabúa. Sushi smáréttir voru fremur góðir, svo og réttir eldaðir á Wok pönnu, en beztur var grillaður matur á tréspjótum.
Barock, Parizská 24, s. 232 9221, 1.800 kr. ísl.
Perlan í Prag
Pragverjar eiga sína Perlu á efstu hæð í húsi, sem er miklu frægara en Perlan í Reykjavík. Þeir kalla það Dansandi húsið, Tacící dum, hannað af Frank Gehry og reist 1996. Perlan er eitt glæsilegasta og bezta veitingahús borgarinnar og um leið það dýrasta, þótt það slái ekki reykvísku Perlunni við á því sviði.
Perle de Prague, Rasínovo nábrezi 80, s. 2198 4160, 2.400 kr. ísl. á mann þríréttað.
Kampa Park kvöld
Þótt Tékkar eigi ekki nútímahæfa matreiðsluhefð, hafa þeir góða villibráð og geta eldað hana á vestræna vísu. Bezta villibráðin og notalegasta kvöldstemmningin var á Kampa Park á norðurenda eyjarinnar Kampa, undir Karlsbrú. Þar er hægt að borða úti við ána, þegar gott er veður, annars inni við arineld. Á þessum veizlulega stað voru andarbrjóst og steik af tvenns konar dádýrum í fínasta lagi, svo og skógarber í eftirrétt.
Kampa Park, Na Kampe 8, s. 5731 3493, 2.300 kr. ísl. á mann þríréttað.
Jónas Kristjánsson
DV