Pressuballsblaðamenn sameinast

Greinar

Mikill hluti fjölmiðlunar á Íslandi snýst um sætt kvak við valdhafa af ýmsu tagi, er eins konar pressuballsfjölmiðlun. Fæstir reyna að fara út á akurinn til að velta við steinum og segja fólki frá því, sem ekki sést í daglegu spjalli. Hér á DV hafa verið gerðar undantekningar á þessari reglu.

Við höfum sagt frá handrukkunum og öðru ofbeldi, sem vex í undirheimum þjóðfélagsins. Við höfum talað við fórnardýr og gerendur, fengið játningar, birt nöfn og myndir. Í sumum tilvikum er lögreglan mörgum dögum á eftir DV í öflun slíkra upplýsinga, svo sem sjá má í viðtölum við hana í Mogga.

Þegar DV gerir mistök á þessu sviði, leiðréttir blaðið þau og biðst afsökunar, þar sem það á við. Pressuballsfjölmiðlun þarf ekki að birta leiðréttingar og afsakanir, af því að hún fjallar ekki um efni, sem menn vilja halda leyndu, hún snýst ekki um sjálfstæðar rannsóknir í undirheimum landsins.

Þegar DV birtir játningar ofbeldismanna eða fer á annan hátt fram úr öðrum fjölmiðlum, hefur það ekki verið umræðuefni hjá pressuballsfjölmiðlungum. Ef hins vegar grunur leikur á, að ekki sé tæknilega rétt farið með öll atriði, eru hinir ágætu pressuballsmenn ekki lengi að fitja upp á trýnið.

Sumir fjölmiðlungar leggja þannig mikið að sér við að afla upplýsinga um, hver gerði hvað, hvar og hvenær, hvernig og hvers vegna og hvað svo. Aðrir vakna bara, ef þeir telja sig geta komið höggi á rannsóknablaðamenn, sem eru að reyna að vinna vinnuna sína við erfiðari kringumstæður en hinir.

Við lifum í þjóðfélagi, sem er illa búið undir handrukkun og annað ofbeldi. Hér eru ekki lög og reglugerðir, sem gera ráð fyrir, að ofbeldi sé meiri háttar vandamál. Hér er ekki veitt fé til að sinna þessu máli betur. Hér neita dómarar um vitnavernd fyrir manni, sem sveiflar öxi á skemmtistað.

Lögreglan segir hreinlega í Mogga, að ekki sé sjálfgefið, að menn séu handteknir umsvifalaust, þegar þeir hafa misþyrmt fórnarlambi á óvenjulegan hátt. Vafalaust er rétt, að reglur, sem lögreglan fer eftir, eru ekki til þess fallnar að ná utan um harðan heim margra ungmenna nú til dags.

Gott væri, ef pressuballsblaðamenn sameinuðust um að hvetja framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið, lögregluvaldið og dómsvaldið til að grípa til harðari aðgerða gegn ofbeldi.

DV