Prestastígur

Frá Víðivöllum við Ármannsfell um Hrafnabjörg að Biskupsflöt á Lyngdalsheiði.

Við getum ekki rakið þessa leið nákvæmlega, nema við vitum um helztu örnefni á leiðinni. Gott væri, ef hestamenn prófuðu að fara þessa leið eins og hér er lýst. Mikilvægt er að endurvekja leiðina um Prestastíg, því að hún er sögufræg. Hún var farin milli Skálholts og Þingvalla og einnig áfram frá Þingvöllum um Kjósarskarð til Maríuhafnar við Laxá í Kjós. Leiðin, sem sýnd er á meðfylgjandi korti, er samkvæmt árbók FÍ. Betra er að fara austanvert með girðingu frá Víðivöllum að Hrafnabjörgum vestanverðum og fara þaðan beint suður að Dímon vestanverðum. Þannig sleppa menn við girðingar. Þessa leið fór Sturla Sighvatsson til Apavatnsfundar með Gissuri Þorvaldssyni. Beitivellir við Laugarvatnshelli undir Reyðarbarmi voru þekktur áningarstaður að fornu. Þar hittust Kolbeinn ungi Arnórsson og Gissur Þorvaldsson 1238 til herferðar gegn Sturlu Sighvatssyni vestur í Borgarfjörð og Dali. 1. janúar 1242 fór Órækja Snorrason um heiðina á leið í Skálholtsbardaga við Gissur Þorvaldsson. Í febrúar 1253 lenti Þórður Hítnesingur í hrakningum á heiðinni og varð að snúa við til Gjábakka í Þingvallasveit. Fór síðan vestan við heiðina um Búrfell til Skálholts.

Byrjum á Víðivöllum undir Ármannsfelli. Við förum suður um hraunið yfir Prestastíg á Hlíðargjá að eyðibýlinu Hrafnabjörgum. Sú leið hefur ekki verið nákvæmlega kortlögð. Frá Hrafnabjörgum förum við suður yfir Heiðargjá og Hrafnabjargaháls að Dímon norðan Lyngdalsheiðar. Sú leið hefur ekki heldur verið nákvæmlega kortlögð. Síðan fyrir Reyðarbarm til Beitivalla við Laugarvatnshelli. Frá Beitivöllum förum við frá yfir norðausturenda Lyngdalsheiðar að Biskupsflöt og Biskupsbrekkum, þar sem við komum á svonefndan Biskupaveg yfir Lyngdalsheiði. Sá vegur liggur milli Skálholts og Þingvalla.

18,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kálfstindar.
Nálægar leiðir: Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Hrafnabjörg, Búrfellsgötur, Dráttarhlíð, Biskupavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins