Primavera

Veitingar

Primavera býður freistandi seðil, en bregzt stundum á mest rómaða sviðinu, í matreiðslunni. Hún er oft góð, en stundum skortir næmi fyrir nákvæmni í mikilvægum smáatriðum, svo sem eldunartíma, sem verður óhæfilega langvinnur. Þetta kom fram í fiski og kjöti, pasta og grænmeti á einu og sama kvöldinu.

Matreiðslan var jafnbetri á afskekkta staðnum í Kringlunni, þar sem Primavera var áður. Nú er veitingahúsið komið í alfaraleið í sjálfu Austurstræti og er orðið vinsælt, svo að þar kann að vera að leita skýringanna á sveiflum eldhússins.

Frá fallega háum og nöktum matstað á annarri hæð er ágætt útsýni í hádeginu um risastóra glugga niður á þá, sem skjótast í Ríkið handan götunnar. Spegill nær yfir annan þvervegg allan og lengir staðinn mjög. Hinn þvervegg prýðir risastór eftirprentun Vorsins eftir endurreisnarmálarann Sandro Botticelli.

Brakandi hvítt lín er á borðum jafnt í hádegi sem að kvöldi, svo og firnaljót póstkort. Við gluggaborð eru þægilegir og fínir armstólar og við innri borð eru fullbólstraðir hægindastólar. Þjónusta er með ítölskum hætti, þótt íslenzk sé, örugg og vafningalaus.

Þetta er meðalstaður að verðlagi, aðalréttir á tæpar 1500 krónur, forréttir og eftirréttir á 750 krónur að meðaltali. Í hádeginu er 1240 króna tilboð þríréttað með vali milli þriggja forrétta og þriggja aðalrétta.

Vínlisti hússins er ítalskur og góður. Þar á meðal er Feneyjavín hússins, Pinot Grigio og Merlot. Meðal hvítvíns er Bianco di Custoza og Soave Classico og meðal rauðvíns er Tignanello, Barolo og Brunello di Montalcino.

Gott brauð er á borðum, oftast volgt, ennfremur olífur og hrist olífusósa með balsamediki. Tannstönglar koma orðalaust á borð eftir aðalrétti. Pasta er framleitt á staðnum.

Súpur voru ágætar, einkum hvítlaukskrydduð og tómatblönduð fiskisúpa með meyrum hörpufiski, humri og rækjum; en einnig tær og ljúfkrydduð grænmetissúpa. Ferskt grænmetissalat með sólþurrkuðum tómötum og kotasælu var fallegt, ferskt og gott.

Ofnbakað eggaldin parmiggiano er spennandi forréttur, sem hefði verið góður, ef eggaldinið hefði verið minna brennt og vottað hefði fyrir grana-osti í bragði. Bragðdaufir gnochi-pastahlunkar höfðu lítinn stuðning af myrtilsveppum og bragðdaufri rjómasósu. Mun betri voru tagliatelle-pastaræmur með sólþurrkuðum tómati og humar.

Í hádegi var fiskiþrenna kola, steinbíts og lax með fáfnisgrasasósu hæfilega steikt og bragðgóð, en að kvöldi var grænmetishjúpaður steinbítur með basilíkusósu ofsteiktur og bragðdaufur.

Grísahryggsneið með rósapiparsósu var hæfilega steikt og skemmtilega krydduð í hádegi, en að kvöldi var kálfasneið milanaise lítið annað en eggjarasp og bragðaðist eins og eggjarasp.

Tiramisu var létt lagkaka úr osti, fjarskyldur ættingi samnefnds Feneyjaréttar. Marineraðar sveskjur með espressosósu voru góðar, en bornar fram á þykkum og grjóthörðum kökubotni. Pavé reyndist vera munaðarfull súkkulaðiterta með ís, þreyttum rjóma og möndluflögum. Allt kaffi var gott í Primavera, jafnt ítalskt og danskt pressað.

Ef ég vissi, hvenær matreiðslan er góð og hvenær ekki, kæmi ég oftar í þennan skemmtilega stað.

Jónas Kristjánsson

DV