****
Fyrirsjáanlegt og gleymanlegt
Primavera í Austurstræti hefur fjarlægzt nýjungar og nýfrönsku og fært sig nær almennum og traustum matarsmekk, ræktuðum í Laugaási. Enda er hér í hádeginu fullt af viðskiptafólki að nota sér 2.190 króna verð á þríréttuðum mat við hvíta taudúka og tauservéttur, meðan svipuð verðtilboð í nýklassískum stíl a la Bocuse njóta lítillar eftirspurnar á Hótel Holti.
Flest er fyrirsjáanlegt og gleymanlegt á Primavera, mikið af klettakáli, parmaosti, parmaskinku, ungosti, pöstum og olífuolíu, sem eigendum og gestum finnst hljóta að eiga að einkenna ítalskan mat. Segja má, að Primavera sé fremur eftirlíking eða málverk af ítölskum matstað en raunverulegur ítalskur matstaður. Enda hefur hann slegið í gegn og þarf ekki lengur sífellt að rembast við vandaða matreiðslu.
Innréttingar eru stílhreinar og fallegar eins og þær hafa alltaf verið, þótt ég sakni eftirgerðarinnar af Vorinu eftir Botticelli, sem í upphafi var fyrir vesturveggnum. Spegilveggurinn í austri gerir okkur kleift að virða fyrir okkur fræga gesti svo lítið beri á. Kliðurinn er svo mikill í víðum og hljóðbærum salnum, fullum af fólki, að ég heyri varla í sjálfum mér. Þetta er því staður með góða sveiflu.
Fimmrétta og 5900 króna kvöldmáltíð hófst með hlutlausri parmaskinku með selleríi og klettakáli; hélt áfram með unaðslega góðum, steiktum smokkfiski með ferskum pipar og auðvitað klettakáli; komst yfir í primo með hæfilega soðnu garganelli pasta með camembert (af hverju ekki gorgonzola), furuhnetum og sólþurrkuðum tómati; náði hámarki í secundo með ágætlega krydduðum og steiktum skötusel með parmaskinku, salvíu og hvítvíni; og endaði síðan í vanillubúðingnum panna cotta. Flest var þetta bragðgott, enda er Primavera fjögurra stjörnu veitingahús.
Í hádeginu er bezti tíminn. Þá var gott að velja milli frískrar kjúklingabaunasúpu með eggjum og parmaosti annars vegar og hins vegar klettkáls með ætiþistlum úr dós, rauðlauk og miklu af parmaosti. Brennheitt lasagna með hakki og klettakáli var ekki merkilegur matur, en betri var snöggt pönnusteikt rauðspretta með hvítlauksristuðu sjávarfangi, rækju, humri og hörpudiski. Eftirrétturinn var bragðlaust panna cotta, lakari en hafði verið í kvöldveizlunni.
Kaffi er auðvitað frábært á Primavera.
Jónas Kristjánsson
DV