Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er týndur. Svarar engum beiðnum um fréttaviðtöl og lætur hvergi sjá sig. Hefur nefnilega svikið öll loforð, sem hann gaf fyrst fyrir hönd Bjartrar framtíðar og síðan við stjórnarmyndun. Hefur uppgötvað að engir peningar séu til. Það er vegna stórkarlalegra tekjulækkana í kvótarentu og auðlegðarskatti í þágu eigenda Sjálfstæðisflokksins. Proppé dregur engar vitrænar ályktanir af því ferli, heldur strýkur ljúflega um handarhvílu ráðherrastólsins. Honum nægði að pósa fínn í tauinu. En nú duga látalætin ekki lengur. Fólk áttar sig á, að loforð vísa bara inn í óvissa framtíð, án neinna haldbærra framkvæmda.