Próventukarlar Evrópu

Greinar

Milli lína í nýrri skýrslu Seðlabankans má lesa, að einn helzti kosturinn við aðild að evrópsku markaðssvæði eða Evrópubandalaginu sé, að íslenzkar ríkisstjórnir geti þá ekki stjórnað eins mikið og þær vilja. Milli lína er botnlaust vantraust á ríkisstjórnum okkar.

Í skýrslunni segir, að frjálsir fjármagnsflutningar milli landa muni gera íslenzkum stjórnvöldum ókleift að reka hér vaxta- og peningastefnu á skjön við raunvexti í útlöndum og komi í veg fyrir, að íslenzk stjórnvöld skattleggi fólk og fyrirtæki út af markaði.

Í skýrslunni segir, að íslenzk stjórnvöld muni í evrópska rammanum neyðast til að halda aftur af útgjöldum sínum, svo að hallarekstur ríkissjóðs auki ekki verðbólgu og veiki ekki þar með íslenzka gjaldmiðilinn í samanburði við aðra gjaldmiðla á markaðssvæðinu.

Hér í blaðinu hefur oft verið bent á, að Evrópubandalagið sé ekki sú himnasæla, sem sumir bíða eftir. Það hefur marga alvarlega galla, þótt frjálsir fjármagnsflutningar séu ekki einn þeirra. Enda skiptist þjóðin í tvær stórar fylkingar, með og móti bandalaginu.

Ástæðan fyrir því, að stuðningsmönnum aðildar hefur fjölgað að undanförnu, er hin sama og kemur fram í skýrslu Seðlabankans. Þeim fjölgar, sem efast um, að heppilegt sé, að íslenzkar ríkisstjórnir stjórni landinu, og vilja heldur eins konar vitræna stjórn að utan.

Ekki er gott, að vantraust á kjörnum stjórnvöldum gangi svo langt, að Seðlabankinn velti vöngum um, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir, að íslenzk stjórnvöld séu á skjön við heilbrigða skynsemi. Og verra er, ef þetta flæmir okkur í faðm Evrópubandalagsins.

Engar horfur eru á, að umskipti í kosningum hafi áhrif á stjórnarfar landsins. Ef Sjálfstæðisflokkur og Kvennalisti mynda stjórn eftir næstu kosningar og Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag fara í andstöðu, verður allt eins og áður var.

Sem dæmi um vonleysið má nefna, að núverandi stjórnarandstaða mun ekki draga úr þjáningunni, sem hefðbundinn landbúnaður veldur þjóðinni. Núna er um 17 milljörðum fleygt árlega út í veður og vind landbúnaðar. Sú tala mun ekki lækka við stjórnarskipti.

Sem dæmi um vonleysið má nefna, að allir stjórnmálaflokkar eru sammála um að reka fyrirgreiðslustefnu fyrir gæludýr í atvinnulífinu, eins konar velferðarríki forstjóra. Þetta hefur leitt til, að 100 milljarðar liggja ónýtir í offjárfestingu á vegum opinberra sjóða.

Sem dæmi um vonleysið má nefna, að allir stjórnmálaflokkar, sem við völd hafa verið, hafa tekið þátt í að byggja upp kerfi sjóða, sem haldið er úti með bókhaldsbrellum. 16 milljarða gat er á lífeyrissjóðunum. Húsnæðislánakerfið verður gjaldþrota fyrir aldamót.

Sem dæmi um vonleysið má nefna, að allir stjórnmálaflokkar eru sammála um, að vextir eigi að vera “sanngjarnir” eins og það er kallað. Í vaxtatapi hafa 92 milljarðar verið teknir frá þeim, sem öngla saman sparifé, og gefnir gæludýrunum, sem forgang hafa að lánsfé.

Það er þjóðin sjálf, sem hefur leitt núverandi ríkisstjórn til hásætis og aðrar ríkisstjórnir, sem gengu berserksgang á undan henni. Það er þjóðin sjálf, sem hefur ákveðið, að jafnan skuli stjórna landinu þeir menn, sem líklegastir eru til að hafa mesta ofstjórn og óreiðu.

Með sama áframhaldi munum við gefast upp og sigla til sæluríkis Evrópubandalags, þar sem við getum gerzt próventumenn á landbúnaðarstyrkjum fyrir útkjálka.

Jónas Kristjánsson

DV