Pútín er nýr Stalín

Greinar

Andrei Babitsky, fréttamaður Radio Liberty í Tsjetsjeníu hafði lengi farið í taugar Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, af því að fréttir hans voru réttar og stungu í stúf við lygavefina, sem Pútín lét semja um stríðið. Því var Babitsky handtekinn á eftirlitsstöð 16. janúar.

Babitsky hefur ekki sézt síðan. Sennilega hafa menn Pútíns myrt hann. Þeir neituðu í tvær heilar vikur að hafa handtekið hann, unz þeir þóttust skyndilega hafa afhent hann skæruliðum Tsjetsjena 3. febrúar. Þeir sýndu greinilega falsaða mynd af þeim meinta atburði.

Allt er málið einkar stalínskt. Fyrst er maðurinn sagður ekki til og svo er hann afhentur. Hann er sagður afhentur Tsjetsjenum, af því að hann hafi sjálfur beðið um það. Allt er þetta sama gamla lygin og Stalín stundaði og nákvæmlega í gamla ósvífna stílnum hans.

Alexander Khinshtein, blaðamaður við Komsomolets, slapp naumlega 17. janúar, er menn komu að flytja hann nauðugan á geðveikrahæli. Sú aðferð var notuð af KGB á sínum tíma og hefur verið endurvakin af Pútín, sem er alinn upp í KGB og Stasi í Austur-Þýzkalandi.

Pútín hefur tekið upp fleiri siði úr gömlum kennslubókum. Hópi erlendra blaðamanna var sýnt friðsælt tölvuver í skóla í þeim hluta Tsjetsjeníu, sem rússneski herinn hafði náð á sitt vald. Eini gallinn við Pótemkín-tjaldið var, að ekkert rafmagn hafði verið lagt í skólann.

Eins og á tímum Stalíns mættu hópnum hópar af syngjandi Tsjetsjenum, sem dönsuðu þjóðdansa með hamingjusvip. Þannig er lygavefurinn spunninn af KGB, sem núna heitir FSB, nákvæmlega eins og hann var spunninn, þegar svart var hvítt í Sovétríkjunum sálugu.

Enginn vottur af sönnun hefur komið fram um, að Tsjetsjenar hafi valdið sprengingum í íbúðablokkum í Moskvu og víðar. Herferðin gegn þeim er því byggð á yfirvarpi. Hún heitir frelsun á máli Pútíns og manna hans, en varðar þó við alþjóðareglur um stríðsglæpi.

Einkennilegt er að frelsa fólk með því að sprengja hús þess, ræna eignum þess og myrða það af handahófi, pynda það og nauðga því í fangabúðum. Um þetta eru rækileg gögn hjá fjölþjóðastofnunum, en Pútín heldur áfram þeim sið Stalíns að sýna syngjandi dansflokka.

Aðgerðir Pútíns í Tsjetsjeníu eru skipulagt þjóðarmorð gegn fólki, sem formlega séð telst vera borgarar í Rússlandi. Þær sýna viðhorf stjórnvalda til borgara í eigin landi. Með Pútín hefur stjórnarfar í Rússlandi horfið aftur til Sovétríkjanna eins og það var á tímum Stalíns.

Áhugamál Pútíns komu greinilega í ljós á fundi svonefnds Sambands sjálfstæðra ríkja í lok janúar, þar sem hann vildi hvorki ræða fríverzlun né Tsjetjeníu, heldur eingöngu um aukið samstarf leyniþjónustanna í þessum arftakaríkjum Sovétríkjanna sálugu.

Sem betur fer eru Rússland og Samband sjálfstæðra ríkja efnahagslegir dvergar, sem geta lítið spillt fyrir úti í hinum stóra heimi. Rússland hefur þó mikið af kjarnorkuvopnum og nýjan Stalín á toppnum, sem gerir lífið í heiminum hættulegra en það var á tíma Jeltsíns.

Því miður eiga utanríkisþjónustur vestrænna stórvelda erfitt með að kyngja því, að dálæti þeirra á Jeltsín hefur leitt Pútín til valda. Þess vegna reyna þær að gera lítið úr þeirri staðreynd, að stjórnarfar í Rússlandi Pútíns siglir hraðbyri í átt til stjórnarfars Sovétríkja Stalíns.

Vesturlandabúar eiga strax að stöðva vestræn lán til Rússlands. Þau eru notuð til þjóðarmorða og annarra glæpa gegn mannkyninu á vegum hins nýja Stalíns.

Jónas Kristjánsson

DV