Rætur pyndinga bandaríska hersins í Írak liggja í verkefni, sem trúarofstækismaðurinn George W. Bush Bandaríkjaforseti fól trúarofstækismanninum John Ashcroft dómsmálaráðherra snemma árs 2001, þegar Bush var nýtekinn við völdum. Verkefnið fólst í að finna leiðir til að kvelja óvinina.
Að verkefninu vann mest John Yoo prófessor, sem gegnir svipuðu hlutverki fyrir bandarísku ríkisstjórnina og Jón Steinar Gunnlaugsson gegnir fyrir þá íslenzku, að finna einhverja langsótta þrætubók til að rökstyðja löglausar ákvarðanir, sem valdasjúkar ríkisstjórnir vilja taka.
Yoo og aðrir sérfræðingar fundu út þá langsóttu þrætubók, að Bandaríkin gætu neitað að taka mark á Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga og neitað að taka þátt í nýja Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum í Haag. Á grundvelli þessa mannhaturs að ofan hófst vítahringur bandarísks ofbeldis og pyndinga.
Á þessu stigi kom Donald Rumsfeld stríðsmálaráðherra til skjalanna. Trúarofstækismaðurinn William Boykin hershöfðingi var fenginn til að skipuleggja einskismannsland í fangabúðum Bandaríkjanna í Guantánamo, þar sem hundruðum manna var haldið án dóms og laga á grundvelli þrætubókar lögfræðinga.
Boykin er frægur fyrir ferðir sínar um Bandaríkin, þar sem hann prédikar krossferð gegn trúarbrögðum Satans, þar sem öll meðöl séu heimil sannkristnum. Á þeim grundvelli var hann síðan sendur til Afganistans til að skipuleggja illa meðferð stríðsfanga og loks til Íraks í sömu erindagerðum.
Að málinu kemur einnig Ricardo Sanchez, yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Írak. Hann gegndi þar svipuðu hlutverki og Donald Rumsfeld í Guantánamo, undirritaði tilskipanir um aðferðir við yfirheyrslur, sem fóru úr böndum. Nýjustu fréttir herma, að hann hafi sjálfur horft á pyndingarnar.
Allt ferlið var skipulagt að ofan og verður rakið beint til sjálfs Bandaríkjaforseta, sem setti það í gang, hvattur af Dick Cheney varaforseta, sem er hinn illi andi að baki vitgranns forseta. Pyndingarnar í Írak eru stjórnarstefna, sem á sér hliðstæður bæði í Afganistan og Guantánamo.
Það bætir svo ekki úr skák, að hermenn Bandaríkjanna eru atvinnumenn, að nokkru leyti úrhrök, sem ekki geta unnið heiðarlega vinnu og leita í faðm hersins í leit að góðu lifibrauði. Mikið af þessu fólki er sjúkt af bandarískri aðdáun á ofbeldi og kynórum, lifir í heimi kvikmyndanna.
Við þekkjum afleiðingarnar. Ástandið í Írak er orðið verra en það var hjá Saddam Hussein og ástandið í Afganistan er orðið verra en það var hjá talibönum. Hvarvetna verða til herir fórnardýra, sem hata bandalag “hinna viljugu ríkja”.
DV