Pyndingarnar

Greinar

Bandaríkjamenn fóru vel með fanga sína í heimsstyrjöldinni síðari eins og önnur vesturveldi. Það létti þeim að vinna friðinn að stríðinu loknu. Meðal Japana og Þjóðverja var ekki ræktað hatur gegn hernáminu. Því komst lýðræði á legg í öxulveldunum og þau urðu meðal hornsteina lýðræðisþjóða.

Nú er öldin önnur. Þótt rannsóknir hafi sýnt, að pyndingar ná engum árangri öðrum en að ná lygasögum upp úr fólki. Þótt þær séu bannaðar samkvæmt alþjóðalögum, sem sett hafa verið að undirlagi vesturveldanna. Nú eru stríðsfangar pyndaðir skipulega bæði í Guantanamo á Kúbu og í Abu Ghraib í Bagdað.

Mikilvægir þættir í bandaríska kerfinu hafa verið andvígir þessari nýju stefnu. Meðal þeirra er innanríkislögreglan FBI, sem hefur ítrekað kvartað við forsetaembættið og gefið út skýrslur, sem gagnrýna pyndingarnar, er hafa haldið áfram síðan myndir birtust um allan heim frá ógeðinu í Abu Ghraib.

William Pfaff, fastur dálkahöfundur International Herald Tribune, telur, að pyndingar hafi verið á stefnuskrá George W. Bush löngu áður en nokkrir stríðsfangar voru til að pynda. Nokkrum dögum eftir hryðjuverkið 11. september 2001 var tilkynnt, að Bandaríkin tækju ekki mark á alþjóðalögum.

Nokkrum mánuðum síðar var búið að gera ráðstafanir í reglugerð til að hindra málsóknir gegn pyndurum hersins. Og í janúar 2002 skrifaði Alberto Gonzales hina frægu greinargerð um lögmæti pyndinga. Hann var síðan verðlaunaður eftir kosningarnar í haust með embætti dómsmálaráðherra.

Samkvæmt Gonzales má fara framhjá bandarískum lögum með því að framkvæma pyndingar utan Bandaríkjanna. Samkvæmt Gonzales má fara framhjá alþjóðalögum með því einfaldlega að láta forsetann lýsa yfir, að allir hinir handteknu séu ekki stríðsfangar, heldur ólöglegir og réttlausir aðilar.

Allar þessar ákvarðanir voru teknar áður en stríðið hófst fyrst gegn Afganistan og síðan gegn Írak. Pfaff telur, að pyndingarnar miðist raunar ekki við að ná í upplýsingar, heldur eigi þær að valda ógn og skelfingu meðal óvina Bandaríkjanna, raunar eins og eyðing borgarinnar Falluja.

Pyndingar Bandaríkjamanna eru skilaboð til heimsins um, að Bandaríkin séu sér á báti, þau taki ekkert mark á áliti umheimsins, þau hagi sér eins og þeim þóknist, þau kvelji andstæðinga sína að geðþótta, þau drepi 100.000 óbreytta borgara í Írak til þess að hinir fari loksins að hlýða.

Tveir gallar eru við bandaríska ógeðið. Þetta er léttasta leiðin til að tapa friðnum eftir stríð og léttasta leiðin til að rústa áliti umheimsins á ógnarstjórn ofstækismanns.

Jónas Kristjánsson

DV