Ráðalaus og rænulaus

Greinar

Fyrsta afleiðing vaxtalækkunar ríkisstjórnarinnar er, að spariskírteini og aðrir ríkispappírar rokseljast. Fólk flýtir sér að kaupa þessar skuldbindingar, meðan vextir þeirra eru enn háir. Vextir haldast nefnilega háir á bréfum, sem fólk er búið að afla sér fyrir lækkun.

Þetta þýðir, að staða ríkissjóðs batnar um stundarsakir og fjármálaráðherra verður afar kátur. Markmið ráðstafana stjórnarinnar er nefnilega ekki að leysa neinn vanda, heldur lina þjáningar líðandi stundar og vernda ímyndunina um, að eiturlyf lækni sjúkdóminn.

Timburmennirnir koma svo síðar, þegar stjórnin fremur hina tilefnislausu vaxtalækkun. Þá mun sala ríkispappíra stöðvast og fjármagnið flýja á önnur mið. Stjórnin mun reyna að elta það uppi með nýjum ráðstöfunum, því að sjúklingurinn þarf sífellt nýjar sprautur.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin geti ekki hætt eltingaleiknum, fyrr en hún er búin að þvinga fólk til að kaupa frystikistur og annað slíkt fyrir peningana, í stað þess að leggja þá fyrir og magna þar með þjóðarauð. Vaxtalækkunin er því gott dæmi um afar skaðlega ráðstöfun.

Gengisskráning stjórnarinnar stuðlar að harmleiknum. Eftir 6% lækkun er gengi krónunnar allt of hátt skráð, svo að frystikistur og aðrar innfluttar eyðsluvörur verða áfram miklu ódýrari en þær væru við heilbrigðar aðstæður. Þetta eflir eyðslu og minnkar sparnað.

Eftir ráðstafanir ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir yfir tíu milljarða halla á viðskiptum Íslands við um heiminn. Engin hagtala sýnir betur en sú, hvílík reginvitleysa felst í að reyna að halda með handafli óeðlilega lágum vöxtum og óeðlilega háu krónugengi.

Niðurskurður ríkisútgjalda um 300 milljónir króna er kák eitt, svo sem sést af samanburðinum við 260 milljónirnar, sem ríkisstjórnin vill, að sveitarfélögin í landinu skeri niður. Það er sama gamla sagan, að ríkið gerir miklu meiri kröfur til allra annarra en sjálfs sín.

Oft hafa íslenzkar ríkisstjórnir lent í erfiðleikum við að vernda ímyndanir, en sjaldan hefur blekkingin verið jafn eindregin og einmitt núna. Margar ríkisstjórnir hafa verið ráðafáar og rænulitlar, en þessi virðist komast þeirra næst því að vera bæði ráðalaus og rænulaus.

Meðan ríkisbú og þjóðarbú eru á samfelldum fíknisprautum ríkisstjórnarinnar, eru ráðherrar í einleik, alveg eins og hver stund sé hin síðasta þeirra í starfi. Landbúnaðarráðherra skellir 190% jöfnunargjaldi á franskar kartöflur til að hefna sín á fjármálaráðherra.

Ekki er minni einleikur húsnæðisráðherra, sem leggur fram hvert lagafrumvarpið á fætur öðru, meira eða minna án samráðs við aðra. Frumvörp þessi vernda ímyndunina um, að eitthvað sé verið að gera til að fjármagna íbúðir landsmanna, nú síðast með kaupleigu.

Á sama tíma og reynt er að fá fólk til að ímynda sér, að pappírar á borð við kaupleigufrumvörp útvegi lánsfé, sem ekki er til, er ríkisstjórnin beinlínis að skera niður peningana, sem renna til íbúðalánakerfisins. Þriðjungur alls niðurskurðarins er á því sviði einu.

Gott væri, ef sjónhverfingarnar væru boðberi afsagnar ríkisstjórnarinnar. Sjaldan hefur verið meiri þörf á, að ríkisstjórn taki afleiðingum eigin getuleysis. Sjaldgæft er, að ríkisstjórn þurfi að láta ráðstafanir koma linnulaust á hæla ráðstafana til að vernda ímyndanir.

Því miður bendir ekkert til, að stjórnin fari frá. Hún er svo ráðalaus og rænulaus, að hún trúir enn á kraftaverk í eiturlyfjasprautum, svokölluðum ráðstöfunum.

Jónas Kristjánsson

DV