Ráðgera 8% ríkishalla

Greinar

Svo mikil þensla er í þjóðfélaginu, að laus störf, sem bíða eftir fólki, eru margfalt fleiri en þeir, sem atvinnulausir eru. Þjóðhagsstofnun áætlar, að um 3000 störf séu laus eða sem svarar nærri 3% alls mannaflans, en vinnuveitendasambandið telur þau vera 4500­6000.

Þetta eru að því leyti góðar tölur, að þær sýna kraft í atvinnulífinu og gefa vonir um vaxandi þjóðarframleiðslu í náinni framtíð. En þær benda líka á, að mikil hætta er á, að þenslan leiði til nýrrar aukningar verðbólgu eftir samdrátt hennar á undanförnum misserum.

Við slíkar aðstæður er brýnna en oftast áður, að ríkið beiti áhrifum sínum í átt til jafnvægis. Það gerir ríkið bezt með því að beita ströngu aðhaldi í rekstri sínum, draga úr opinberum millifærslum og fresta framkvæmdum, sem í sjálfu sér má telja brýnar.

Þegar atvinnulífið er í doða, getur verið eðlilegt, að ríkið þenji seglin til að auka atvinnu. Hins vegar er öruggt, að það verður að rifa seglin, þegar önnur eins þensla er í atvinnulífinu og er um þessar mundir. Ríkisstjórnin hefur gersamlega brugðizt í þessu efni.

Þorvaldur Gylfason prófessor hefur bent á, að ráðgerður halli á ríkisbúskap næsta árs sé 12,4 milljarðar króna. Þetta er samanlögð lánsfjárþörf samkvæmt A-hluta, B-hluta og því, sem hann kallar C-hluta fjármála ríkisins. Þetta er 8% af áætlaðri landsframleiðslu.

Hversu hrikalegur þessi hallarekstur er, má til dæmis sjá af því, að hann samsvarar 30% af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hann er raunar töluvert meiri en er á þessu ári og hlýtur að teljast verulega hættulegur yfirlýstu markmiði hjaðnandi verðbólgu.

Þorvaldur hefur einnig reiknað út svokallaðan þensluhalla, það er að segja þann hluta hallarekstrar ríkisins, sem líklegur er til að valda þenslu innanlands og þar með verðbólgu. Sá halli nemur 3,5 milljörðum samkvæmt frumvörpum til fjárlaga og lánsfjárlaga.

Hliðstæður þensluhalli á því ári, sem nú er senn á enda, verður sennilega um 1,6 milljarðar króna. Í fyrra nam hann 4,5 milljörðum króna. Því virðist sem barátta stjórnvalda við verðbólguna hafi náð hámarki í ár og ríkisstjórnin hyggist slaka á klónni á næsta ári.

Fyrirhuguð óráðsía ríkisstjórnarinnar á næsta ári kemur einnig fram í, að hún hyggst auka erlendar skuldir hins opinbera um 1,3 milljarða umfram afborganir eldri skulda. Þetta er nærri 1% af landsframleiðslu og hækkar skuldir þjóðarinnar í útlöndum, en lækkar ekki.

Ríkisstjórnin ráðgerir því ekki að nota góðærið til að reka sitt fyrirtæki hallalaust eins og önnur fyrirtæki í landinu verða að gera og heimilin í landinu verða að gera. Hún hyggst auka skuldirnar í útlöndum, þótt skuldahlutfallið sé þegar eitt hið hæsta í heimi.

Nauðsynlegt er að ítreka, að samkvæmt frumvörpum ríkisstjórnarinnar til fjárlaga og lánsfjárlaga er ráðgert, að lánsfjárþörfin eða tapreksturinn á næsta ári nemi 12,4 milljörðum króna. Þar af er 3,5 milljarða þensluhalli og 1,3 milljarða skuldaaukning í útlöndum.

Þessara talna er rétt að minnast, þegar fjármálaráðherra og ríkisstjórnin þykjast vera að minnka skuldirnar í útlöndum, þykjast vera að minnka verðbólguna og þykjast vera að minnka taprekstur hins opinbera. Allur sá rembingur er hrein firra, ­ lygi á góðri íslenzku.

Ráðamenn okkar ætla á komandi kosningaári vitandi eða óafvitandi að auka skuldirnar, magna verðbólguna og efla hallarekstur opinberra aðila.

Jónas Kristjánsson

DV