Ráðherra á kreppuvegi.

Greinar

Ef stjórnmálamenn standa sig, þegar á reynir, má fyrirgefa þeim margt, jafnvel byggingu Þörungavinnslunnar handa kjósendum og sölu opinberra flugleyfa til að bjarga flokksbróður frá gjaldþroti. Spilling verður seint upprætt.

En Steingrímur Hermannsson stendur sig ekki einu sinni, þegar á reynir í embætti sjávarútvegsráðherra. Hann grípur ekki til augljósra aðgerða til að gera sjávarútveginn samkeppnishæfan á hörðum og ófrávíkjanlegum alþjóðamarkaði.

Hruni loðnustofns og samdrætti þorskstofns þarf að mæta með fækkun skipa með hjálp úreldingarfjár og gjaldþrotaskipta, endurhæfingu skipa til kolmunnaveiða með hjálp endurbótafjár, sölu veiðileyfa og gengislækkun eða gengisfloti.

Í þess stað hefur Steingrímur neytt þeirri stefnu upp á Framsókn, að fiskiskipaflotinn sé í rauninni ekki of stór! Þessu hélt Lúðvík Jósepsson raunar fram á sínum tíma, en hafði sér til afsökunar, að þá vissu sumir ekki betur.

Þessi flokksfirra er líka eingöngu sett á flot til að breiða yfir þá staðreynd, að Steingrímur hefur verið sjávarútvegsráðherra linastur að standa gegn kaupum á nýjum skipum, sem útilokað er, að geti nokkru sinni staðið undir sér.

Framundan eru svo gælur Steingríms við hugmyndir um að sóa 300 milljónum króna til útgerðaruppbóta af fé skattgreiðenda eða afkomenda okkar. Þetta væri hreint sársaukalyf, sem stuðlaði ekki hið minnsta að raunverulegum bata.

Í framhjáhlaupi er svo í forustugrein Tímans minnt á fyrra flokksrugl um ríkisútgerð togara. Það er eins og þetta ömurlega lið ætli ekki að hætta, fyrr en það er búið að koma útgerðinni á sömu vonarvöl og landbúnaðurinn hefur löngum verið.

Að bakgrunni höfum við svo kaldar staðreyndirnar. Loðnan hefur sama sem verið þurrkuð upp og þar með verið höggvið á lífkeðju þorsksins. Jafnframt hefur á tveimur árum verið veitt 30% meira af þorski en fiskifræðingar vildu.

Enginn sterkur þorskárgangur hefur komið síðan 1976. Nú fer sá árangur senn að hætta að geta haldið uppi veiðinni. Enn frekara hrun þorskveiða er því fyrirsjáanlegt á næstu árum, ef ráðamenn og ráðgjafar þeirra vilja ekki taka sönsum strax.

Þegar eru komin í ljós bein áhrif á útgerðina. Vanskil hennar við Fiskveiðasjóð hafa hrannazt upp. Þau jukust úr 132 milljónum í 220 milljónir á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Og eiga eftir að hraðvaxa á næstu mánuðum.

Á sama tíma er Steingrímur Hermannsson að hleypa inn í landið togurum, sem kosta 50 milljónir króna og þaðan af meira, en mættu ekki kosta meira en 20 milljónir, ef nokkur minnsta von ætti að vera á endurgreiðslu vaxta og afborgana.

Enda er ljóst, að útgerðarmenn hinna nýju skipa eru ekki bara að taka spón úr aski þeirra skipa, sem fyrir eru. Þar á ofan ætla þeir sér ekki að endurgreiða krónu af þeim 95%-105%, sem þeir hafa fengið lánuð af kaupverði skipanna.

Hugarfarið er svipað og í baráttunni fyrir alls konar verksmiðjum, sem eiga að rísa á næstu árum, sumpart á kostnað skattgreiðenda og sumpart á kostnað afkomenda okkar, til að framleiða vonlausar vörur á borð við steinull og sykur.

Steingrímur verður þjóðinni margfalt dýrari en ein Þörungavinnsla og eitt Íscargo, ef hann slítur sjávarútveginn úr alþjóðlegu markaðssamhengi og gerir hann að próventukarli við hlið landbúnaðar. Og hann er einmitt á þeim kreppuvegi.

Jónas Kristjánsson.

DV