Ráðherra gegn Mývatni.

Greinar

Fimmtán ára framlenging á starfsleyfi Kísiliðjunnar við Mývatn er algerlega út í hött. Framtak Sverris Hermannssonar á þessu sviði verður ekki stutt neinum haldbærum rökum og varðar þar á ofan sennilega við lög. Það er eins og einhver ónáttúra sé á ferðinni.

Samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár má ekki heimila þar mannvirkjagerð og jarðrask nema með leyfi Náttúruverndarráðs. Mývatn er friðað svæði undir vernd Náttúruverndarráðs. Eftir frumhlaup ráðherrans er ráðinu skylt að sækja hann að lögum fyrir valdníðslu.

Með hverju árinu, sem líður, aukast áhyggjur náttúruverndarmanna vegna efnistöku Kísiliðjunnar úr Mývatni. Hið heimsfræga lífríki vatnsins byggist á, hversu grunnt það er. Því meira, sem það er dýpkað, þeim mun grófar er lífríkinu stefnt í hættu.

Náttúruverndarráð hefur mælt með, að vægar verði farið í sakirnar og starfsleyfi Kísiliðjunnar framlengt um fimm ár að þessu sinni. Það er skynsamleg og sáttfús tillaga, sem hefði í framkvæmd gefið tíma til nánari úttektar á stöðu og horfum lífríkisins.

Því miður hafa núverandi og fyrrverandi stjórnvöld látið undir höfuð leggjast að nota efnistökugjald Kísiliðjunnar til að kosta líffræðirannsóknir á Mývatni. Þess vegna er of lítið vitað um, hversu nærri vatninu megi ganga til að halda Kísiliðjunni í rekstri.

Nú lofar iðnaðarráðherra, að framvegis verði gjaldið notað til þessara rannsókna. Það er út af fyrir sig betra en ekki neitt, þótt taka verði loforð stjórnmálamanna með ærnum fyrirvara. Að minnsta kosti eru mörg óefnd af loforðum flestra ráðherranna.

Sagt er, að afturkalla megi starfsleyfi Kísiliðjunnar. ef rannsóknir sýni, að hætta sé á ferðum. Hins vegar er augljóst, að slík náttúruvernd er mun veikari en sú, sem krefst nýs starfsleyfis hverju sinni. Afturköllun er stærra mál en leyfisneitun.

Ráðherra skýtur sér á bak við Hjörleif Guttormsson, forvera sinn í embætti. Hann verður að sjálfsögðu að fá að velja sér þær fyrirmyndir, sem honum finnst helgastar. En ýmsir aðrir telja sig hafa reynslu af því, að ekki hafi allt verið gott, sem Hjörleifur gerði.

Auk þess breytist staðan með hverju árinu. Mývatn dýpkar alltaf. Þótt einhvern tíma hafi verið verjandi að framlengja starfsleyfi Kísiliðjunnar, felst ekki í því neitt fordæmi, sem núverandi og verðandi iðnaðarráðherra geti vitnað í eins og biblíuna.

Auðvitað ber í þessu máli einnig að taka tillit til hagsmuna Kísiliðjunnar. Ráðagerðir stjórnenda hennar um framtíðina verða því einfaldari sem þeir hafa meiri tíma til stefnu. Auðveldara er að hafa fimmtán ára leyfi í höndunum en þrisvar sinnum fimm ára leyfi.

En í þessu máli eru hagsmunirnir engan veginn sambærilegir. Lífríki Mývatns er margfalt verðmætara en afurðir Kísiliðjunnar. Gildir einu, hvort menn mæla það í peningum eða öðrum verðmætum. Hagsmunir Mývatns verða að fá að ráða, þótt stjórnmálamönnum skoli í ráðherrastól.

Því miður er reynsla fyrir því, að íslenzkir dómstólar hafa tilhneigingu til að gæta hagsmuna þeirra, sem fara með framkvæmdavaldið í landinu, og hvetja þannig til valdníðslu. En Náttúruverndarráð getur samt ekki vikizt undan þeirri skyldu að höfða mál gegn ráðherra, sem telur sig vera ríkið sjálft.

Jónas Kristjánsson.

DV