Kjósendur á Norðurlandi eystra bera ábyrgð á stjórnmálareiki Halldórs Blöndals samgönguráðherra og hrösulum ráðherradómi hans, sem ótt og títt lendir í kastljósi fjölmiðla. Það er í skjóli kjósenda, sem ráðherranum hefur tekizt að ramba milli fingurbrjóta og lögbrota.
Sjálfskaparvíti ráðherrans eiga ekki að koma kjósendum hans á óvart. Hann er búinn að vera lengi ráðherra og enn lengur þingmaður. Samt hefur hann verið endurkosinn hvað eftir annað og verður sjálfsagt áfram, því að kjósendur hans virðast ekki vilja axla ábyrgð sína.
Lélegir embættismenn á borð við flugmálastjóra líta á sig sem sendisveina ráðherrans og magna þannig tjónið af völdum hans. Þannig létu starfsmenn embættisins sig hafa það að láta ráðherra segja sér, hvernig þeir ættu að hafa rangt við í starfi til að þjónusta reiði hans.
Þannig létu embættismenn ráðherrann segja sér að halda peningalegum upplýsingum leyndum fyrir Flugráði, sem átti þó að skrifa upp á þær. Svo virðist sem ráðherrann komist upp með að segja starfsmönnum flugmálastjóra beint fyrir verkum framhjá flugmálastjóra.
Stjórnvald má ekki sveigjast með slíkum hætti eftir kenjum, hvatvísi, lögbrotum eða öðru reiki ráðherra. Stjórnvald glatar trausti, ef það fylgir ekki lögbundnum og hefðbundnum vinnubrögðum, sem hafa alltaf verið og verða alltaf alfa og ómega góðrar embættisfærslu.
Ráðherrann hefur eitrað samgönguráðuneytið. Embættismönnum þess er ekki lengur treyst. Þeir hlaupa svo hratt eftir reiki ráðherrans, að þeir fremja augljós lögbrot, þegar þeir telja það henta honum. Þannig lét ráðuneytið hjá líða að bjóða út ríkisstyrkt flug.
Kjósendur geta stöðvað ráðherrann á fjögurra ára fresti, en hafa ekki gert það. Embættismenn geta stöðvað hann í hvert skipti, sem hann fer út af kortinu, en hafa ekki gert það. Helzt er það forsætisráðherra, sem hefur tekið að sér að afturkalla uppákomur hans.
Þannig varð samgönguráðherra að leyfa Flugráði að sjá skjölin. Þannig varð hann að bjóða út ríkisstyrkt áætlunarflug. Þannig varð hann að draga til baka umtalsverða hækkun á símgjöldum innan símasvæða. Þannig varð hann að leyfa köfun í Æsu sokkna.
Sumir fingurbrjótarnir eru óskiljanlegir, svo sem Æsumálið. Ráðherrann vildi fyrst ekki leyfa köfun, en lét síðan brezkt fyrirtæki sjá um hana fyrir tæpar 30 milljónir króna. Hann svaraði ekki íslenzkum tilboðum um að taka skipið á land fyrir mun lægri upphæð.
Annað íslenzka tilboðið var áhættulaust fyrir ráðuneytið. Fyrirtækið vildi fá níu milljónir, þegar skipið væri komið úr kafi og síðan aðrar níu milljónir, þegar það væri komið á þurrt. Í staðinn kaus ráðherrann að kasta nærri tvöfalt hærri upphæð í sjóinn.
Rauður þráður er í öðru reiki ráðherrans. Þráðurinn felst í eindregnum stuðningi hans við þá sterku í þjóðfélaginu, einkum þá sem njóta einokunar. Þannig hefur hann staðið vörð um hagsmuni Flugleiða og Pósts & síma gegn hagsmunum almennings í landinu.
Engum ráðherra í ríkisstjórninni er eins illa við markaðslögmál nútímans og samgönguráðherra. Hann sýndi það áður sem landbúnaðarráðherra og sýnir það núna sem samgönguráðherra. Hann vill, að ríkið stjórni atvinnulífi þjóðarinnar í smáu sem stóru.
Reiki ráðherrans sýnir veikt þjóðskipulag, þar sem embættismenn standa ekki vörð um siði og reglur og þar sem kjósendur taka ekki afleiðingum gerða sinna.
Jónas Kristjánsson
DV