Ráðherra með skiptimynt.

Greinar

Mútur eru að færast í vöxt í stjórnmálum þessa lands. Meðan sumir ráðherranna leika fína menn á fundum Norðurlandaráðs eru aðrir þeirra að beita fé og aðstöðu ríkisins til að auðga skjólstæðingana eða hindra gjaldþrot þeirra.

Pálmi Jónsson og Ragnar Arnalds, ráðherrar og kjördæmisþingmenn, hafa látið ríkið gefa graskögglaverksmiðju Blöndubænda stórfé til að brjóta á bak aftur andstöðuna við virkjun Blöndu. Um það var fjallað í leiðara í gær.

Steingrímur Hermannsson hefur veitt Arnarflugi leyfi til að fljúga í áætlun til Düsseldorf og Zürich og óbeint leyfi til Amsterdam – í skiptum fyrir að kaupa hið milljónagjaldþrota Íscargo í eigu eins helzta flokksgæðingsins.

Til gamans má geta þess, að fulltrúi ráðherrans í samningunum um kaupin er stjórnarmaður í Flugleiðum! Hefur hann að undanförnu stjórnað næturlöngum fundum til að reka endahnútinn á hin stórkarlalegu viðskipti.

Svo að Íscargo renni ljúfar í háls Arnarflugs hefur bankavaldið verið hvatt til að bjóða fram vænar fyrirgreiðslur. Þær hafa freistað Arnarflugsmanna til þessa leiks og slegið birtu á svartnætti fjármála Íscargo.

Þegar ráðherra gaf fyrr í vetur ádrátt um leyfi til millilandaflugs Arnarflugs, var honum hrósað fyrir. Hann var sagður stuðla að auknu flugi og flugfrelsi og að mjög svo nauðsynlegu aðhaldi að einokun Flugleiða.

Menn vísuðu til nýfenginnar reynslu frá Bandaríkjunum, þar sem aukið flugfrelsi hefur leitt til aukins flugs og lægri fargjalda – og eflt mjög ung og lítil og hress flugfélög á kostnað hinna gömlu og þreyttu risa.

Arnarflug er félag, sem hefur staðið sig vel og vaxið ört. Sjálfsagt var að veita því tækifæri að spreyta sig á fleiri sviðum, til dæmis í áætlunarflugi á milli landa. En ósæmilegt var að hengja á spýtuna greiðasemi við ráðherra.

Nú er það svo komið í ljós, sem okkur hefur lengi grunað hér á blaðinu, að ráðherrann var ekki að hugsa um að draga úr einokun, efla flug og þjónusta neytendur. Hann var bara að hugsa um að bjarga skjólstæðingi sínum.

Sem leyfisveitandi notar ráðherrann aðstöðu sína eins og skiptimynt. “Ef þú gerir þetta fyrir mig, þá geri ég þetta fyrir þig”, er boðorðið sem gildir á siðferðisstigi hans og raunar ýmissa annarra stjórnmálamanna.

Gallinn er sá, að það er ekki ráðherrann, Framsóknarflokkurinn eða skjólstæðingar hans, sem eiga flugleyfi hér á landi. Það er þjóðin, sem á þau. Flugmálaráðherrann fer bara með þau í sjálfteknu umboði.

Auðvitað væri bezt, að landsmenn áttuðu sig á, hve hættulegt er að þola stjórnmálamönnum að soga til sín rétt til skömmtunar, úthlutunar, leyfisveitinga. Við áttum að hafa fengið nógu slæma reynslu af slíku á haftatímanum.

Þjóðin þarf að rísa gegn spillingu af því tagi, sem upp hefur komizt síðustu daga. Hún þarf að láta stjórnmálamennina finna, að þeir komist ekki upp með siðferði stéttarbræðranna úr þriðja heiminum.

Ekki er nóg að fitja upp á trýnið, þegar minnzt er á stjórnmálamenn. Ekki er nóg að lýsa vantrausti á stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn í skoðanakönnunum. Þeir halda samt, að þeir njóti virðingar með þjóðinni!

Jónas Kristjánsson

DV