Ráðherra ræktar spillingu

Greinar

Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra er ekki sammála Ríkisendurskoðun, sem segir, að hann hafi átt að gæta betur hagsmuna ríkissjóðs við sölu Þormóðs ramma á Siglufirði. Fjármálaráðherra hefur raunar aldrei verið sammála gagnrýni, sem hann hefur sætt.

Fjármálaráðherra var ekki heldur sammála Ríkisendurskoðun á sínum tíma, þegar hún átaldi hann fyrir að gefa eftir opinber gjöld Tímans og Svarts á hvítu, þegar hann gekk sem harðast fram í að loka fyrirtækjum, sem ekki voru í sömu stjórnmálanáð og þessi tvö.

Fjármálaráðherra er auðvitað ekki heldur sammála Umboðsmanni alþingis, sem hefur látið fara frá sér óþægilegar álitsgerðir, sem ráðherrann telur sína menn ekki hafa tíma til að svara. Ráðherrann hefur reynt að fá Alþingi til að draga úr fjárveitingum til umbans.

Næst má búast við, að fjármálaráðherra geri tilraun til að fá Alþingi til að minnka fjárveitingar til Ríkisendurskoðunar eins og Umboðsmanns. Það væri í stíl við fyrri vinnubrögð hans á því sviði. Hann er afar ósáttur við, að stofnanir Alþings kássist upp á ráðherra.

Fjármálaráðherra seldi Þormóð ramma til alþýðubandalagsmanna án þess að gæta jafnræðissjónarmiða. Hlutabréfin voru aldrei auglýst formlega til sölu. Þess vegna voru ekki heldur til neinir almennir útboðsskilmálar, sem allir lysthafendur ættu að fara eftir.

Verðgildi hlutabréfa finnst aðeins á þann hátt, að þau séu boðin til frjálsrar sölu með opinberlega birtum skilmálum, svo að allir geti boðið í þau á sömu forsendum. Verðgildi hlutabréfa finnst ekki í deilum milli endurskoðenda um, hvaða reikningsaðferðir séu beztar.

Stjórnmálaandstæðingar ráðherrans á Norðurlandi vestra hafa vakið athygli á, að verðmæti aflans í vinnslu hjá Þormóði ramma væri eitt út af fyrir sig meira en allar skuldir fyrirtækisins, auðvitað fyrir utan eign þess á þremur togurum og fiskiðjuverinu á Siglufirði.

Endalaust má svo deila um, hvort endurskoðunarreglur séu réttari hjá Þormóði ramma eða Ríkisendurskoðun. Þær eru samt ekki kjarni málsins. Hann felst í, að ráðherra vék sér undan því að láta fyrirtækið í sölu á frjálsan, opinn og almennan jafnræðismarkað.

Fjármálaráðherra tók fram, að Ríkisendurskoðun væri ekki dómstóll, þegar hún amaðist við, að hann skyldi strika út opinber gjöld Tímans og Svarts á hvítu. Það er út af fyrir sig rétt, en er þó haldlítið, því að í báðum tilvikum var mismunað með ráðherravaldi.

Þegar fjármálaráðherra víkur átta milljónum að einu gæludýri flokks síns, 23 milljónum að öðru og meira en hundrað milljónum að hinu þriðja, getur hann auðvitað í hvert skipti útvegað sér langsótta útúrsnúninga, sem hann teflir fram gegn athugasemdum eftirlitsmanna.

Þegar fjármálaráðherra hélt flokksbræðrum sínum fræga veizlu í Ráðherrabústaðnum, sagði hann, að veizlan hefði verið haldin til að fagna sigri Íslendinga í landhelgisdeilunni, sem vannst tíu árum áður en veizlan var haldin og var ekkert einkamál Alþýðubandalagsins.

Ólafur Ragnar Grímsson er ekki einn um misbeitingu ráðherravalds, þótt hann gangi fram í því af óvenjulegum ofstopa. Misbeiting ráðherravalds er svarti bletturinn á íslenzka lýðveldinu og minnir mjög á þriðja heiminn. Þormóður rammi er bara hluti þessarar harmsögu.

Íslendingum er minnkun að því sem sjálfstæðri þjóð að hafa ekki komið upp viðskiptaháttum, sem þrengja að svigrúmi ráðherra til ræktunar á spillingu.

Jónas Kristjánsson

DV