Ráðherra segir satt

Greinar

Með nýjum utanríkisráðherra í Bandaríkjunum hafa komið ný viðhorf. Madeleine Albright var ekki myrk í máli, þegar hún kom af fundi með hinum illræmda Slobodan Milosevic Serbíuforseta. Hún sagði Serba þjást, af því að leiðtogi þeirra sinnti ekki skyldum sínum.

Albright skóf ekki heldur utan af skoðunum sínum hjá forustumönnum Króatíu. Hún sagði Jure Radic ráðherra að skammast sín og sakaði Franjo Tudjman forseta um þvergirðingshátt. Allt er orðavalið satt og rétt, en hefur ekki tíðkazt í formlegum samskiptum ríkja.

Mikilvægt er, að Vesturlönd komi sér upp sameiginlegum umgengnisreglum, til dæmis hvernig skuli umgangast dólga, sem sífellt skrifa undir samninga, en taka síðan ekkert mark á eigin undirskriftum. Milliríkjasamskipti eru óframkvæmanleg, nema farið sé eftir leikreglum.

Síðan kalda stríðinu lauk er ekki nokkur ástæða fyrir ráðamenn Vesturlanda að viðra sig upp við vandræðamenn, sem víða ráða ríkjum. Ástæðulaust er að vera með kaffistofuhjal við þjófa, lygara og morðingja og allra sízt við þá, sem sameina öll þessi einkenni.

Takmörk eru fyrir því, hvað Vesturlönd vilja gera til að losna við dólgana. Það sýnir bezt reynslan frá arfaríkjum Júgóslavíu. Þess vegna hafa menn á borð við Milosevic og Tudjman komizt upp með ótrúlegustu hluti. En það er óþarfi að láta sleikja þá í ofanálag.

Verst af öllu er að flagga hótunum, sem ekki er ætlunin að standa við. Reynslan frá arfaríkjum Júgóslavíu sýnir, að slíkt herðir dólgana og dregur úr vægi vestrænna sjónarmiða á alþjóðavettvangi. Menn verða ætíð að gera ráð fyrir að þurfa að standa við hótanir.

Þess vegna verður að takmarka markmiðin, þegar Vesturlönd koma sameiginlega fram gagnvart umheiminum. Betra er að hafa þau í hófi og geta staðið við þau. Einnig eykur það líkur á, að samstaða náist meðal helztu ríkja Vesturlanda um, hver markmiðin skuli vera.

Oft eru einstök ríki Vesturlanda að reyna að ota sínum tota og ná viðskiptum við dólgaríkin frá þeim ríkjum, sem eru að reyna að halda uppi vestrænni virðingu á alþjóðavettvangi. Auðveldara er að halda slíku í skefjum, ef markmiðin eru takmörkuð og vel skilgreind.

Ódýrasta leiðin til að fá menn til að hlusta er að beita efnahagsfrystingu, svo sem gert hefur verið gagnvart Serbíu og þyrfti einnig að gera gagnvart Króatíu. Slík ríki eiga ekki að fá efnahagslegan stuðning til uppbyggingar nema þau fari í öllu að vestrænum leikreglum.

Hvorki Serbía né Króatía fara í neinu að vestrænum leikreglum og brjóta hverja einustu málsgrein í síendurteknum samningum, sem ráðamennirnir undirrita. Vesturlöndum ber að girða kringum slík dólgaríki og láta þau veltast einmana í volæði sínu, heift og hefnigirni.

Fé, sem ekki fer til uppbyggingar í ríkjum, sem hugmyndafræði- og siðferðilega eru fjandsamleg Vesturlöndum, er betur komið í uppbyggingu í ríkjum, sem stefna að svipuðum markmiðum og Vesturlönd og eru líkleg til að verða að virkum hluta hins vestræna heims.

Það er spor í rétta átt, þótt það ráði engum úrslitum, er utanríkisráðherra Bandaríkjanna er farinn að niðurlægja ráðamenn Serbíu og Króatíu með því að segja sannleikann á opinberum vettvangi. Ef það tengist frekari samræmingu orða og gerða, getur það orðið að gagni.

Mestu máli skiptir, að Vesturlönd hafa hugmyndafræðilegra hagsmuna að gæta í umheiminum og verða að hafa burði og vilja til að fylgja þeim eftir.

Jónas Kristjánsson

DV