Ráðherraferð í svartholið

Greinar

Utanríkisráðherra ætti ekki að heimsækja Indónesíu. Ferðaþörf ráðherrans væri betur þjónað hjá einhverju af okkar góðu viðskiptalöndum, þar sem nægir möguleikar eru á auknum viðskiptum. Indónesía er ekki eitt af slíkum löndum, heldur svarthol í tilverunni.

Við getum ekki selt öllum heiminum vörur okkar. Til þess erum við of fáir og umheimurinn of fjölmennur. Bezt er að halda áfram að gera það, sem okkur hefur gefizt bezt. Það er að leita uppi auðugar viðskiptaþjóðir, sem vilja kaupa fiskafurðir okkar dýru verði.

Þessi ríki eru öll í Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku og í Japan. Samtals eru þessir þrír markaðir raunar miklu meira en níu tíundu hlutar heimsmarkaðarins. Við getum því aldrei annað meira en brotabroti af þeim ágætu mörkuðum, sem við erum þegar að rækta.

Fullyrðingar um markaði í öðrum heimshlutum, svo sem í Kína og Indónesíu, eru helbert rugl, sem þjónar ekki öðrum tilgangi en að afsaka ferðalög ráðamanna. Það þarf miklu öflugri þjóðir en okkur til að hasla sér völl í löndum, sem virða ekki viðskiptareglur.

Indónesía hlýtur að vera einna neðst á óskalista íslenzkra kaupsýslumanna. Að vísu er ekki eins vonlaust að festa fé og fyrirhöfn þar og í Kína. Risinn á meginlandinu vermir botnsætið, af því að hann tekur fé og fyrirhöfn manna í gíslingu til að kúga þá til þjónustu.

Indónesía er hins vegar stærsta þjófræðisríki heimsins, síðan Marcos hrökklaðist frá völdum á Filippseyjum. Ætt Suhartos forseta mjólkar þjóðina sér til framdráttar. Erlendir kaupsýslumenn eru metnir eftir því, hvað þeir geta mútað ættinni stórkarlalega.

Nái íslenzkur kaupsýslumaður fótfestu í Indónesíu, þýðir það aðeins, að hann hefur borgað vel undir borðið. Ef hann rekur sig síðan á, að allt er unnið fyrir gýg, stafar það af, að annar hefur komið og boðið betur. Íslendingurinn situr uppi með tapað fé og fyrirhöfn.

Spillingarkostnaður í Indónesíu er 20% af vinnsluvirði. Til samanburðar er slíkur kostnaður í Taílandi 10%. Spillingarkostnaðurinn í Indónesíu er tvöfaldur launakostnaðurinn, sem er 10% af vinnsluvirði. Hér á landi er launakostnaður 80­90% af vinnsluvirði.

Þessar grófu hlutfallstölur sýna sérkennilegt viðskiptaástand í Indónesíu. Þjófræðið er þó ekki eina vandamál ríkisins, því að ofbeldi ríkisvaldsins er það, sem illræmdast hefur orðið í umheiminum. Friðarverðlaunanefnd Nóbels minnti nýlega á þá staðreynd.

Herinn í Indónesíu er frægur fyrir að hafa slátrað 300.000 pólitískum andstæðingum þjófræðisins og 200.000 íbúum eyjarinnar Tímor. Þetta eru mestu fjöldamorð áratuganna, sem liðnir eru síðan Hitler var upp á sitt bezta, næst á eftir fjöldamorðunum í Rúanda.

Ef utanríkisráðherra Íslands er svo ferðasjúkur, að hann þiggur boð um að heimsækja svartholið Indónesíu, mun það senda röng skilaboð til umheimsins, eftir að Ísland var áður búið að senda rétt skilaboð vegna Eystrasaltsríkjanna og síðan vegna Taívans.

Ekki er ástæða til að ætla, að utanríkisráðherra okkar gangi betur að ýta þjófum og morðingjum ríkisstjórnar Indónesíu inn á þröngan veg dyggðanna en honum hefur gengið að sannfæra stjórnir Tyrklands og Noregs um að taka mark á kvörtunum sínum og kveini.

Sú staðreynd, að ferðalag til Indónesíu skuli vera til umræðu í utanríkisráðuneytinu, staðfestir, að þar sitji menn, sem ekki valda verkefnum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV