Ráðherralýðræði

Greinar

Að fyrirmælum landbúnaðarráðherra er ríkiskerfið enn að hefna sín á starfsmönnunum, sem sögðu upp stöðum sínum við rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá. Þrír starfsmenn voru teknir af launaskrá 1. september, þótt uppsögnin hafi miðast við 1. október.

Að sögn fjármálastjóra skógræktarinnar var farið svona með þungaða konu í þessum hópi, af því að frá henni vantaði “nýtt” vottorð um þungun hennar. Hann sagði, að þessi mál yrðu leiðrétt síðar, en fólkið yrði að biðja skrifstofuna um að fá mál sín leiðrétt.

Áður hafði ráðherra látið Ríkisendurskoðun leita saumnálarleit í heystakki að yfirsjónum fyrrverandi forstöðumanns rannsóknarstöðvarinnar. Úr því kom nánast ekki neitt, en ráðherra sá samt ástæðu til að reyna að koma spillingarorði á forstöðumanninn.

Miklu nær væri að fá Ríkisendurskoðun til að amast við spillingu ráðherranna, sem láta til dæmis ráðherrabílstjóra bíða í ráðherrabílum heilu kvöldin fyrir utan hús, þar sem ráðaherrafrúr eru í gestaboði. Spilling ráðherranna fer ekki leynt, heldur er henni hampað.

Á laugardaginn var fjallað hér í blaðinu um hrokann, sem ráðherrar og ráðuneytisstjórar sýna athugasemdum frá Umboðsmanni alþingis. Oddamenn framkvæmdavaldsins svara seint og ekki bréfum hans og vísa til pantaðra álitsgerða innan úr ráðuneytunum.

Athyglisvert er, að harðast ganga fram í þessu ráðherrar Alþýðubandalagsins. Þeir virðast telja ráðherradóm hliðstæðan völdum smákónga í Afríku. Til dæmis hefur fjármálaráðherra kvartað yfir umsvifum umbans og reynt að fá lækkaðar fjárveitingar til embættis hans.

Valdshyggjumenn eiga óeðlilega greiða leið til valda í stjórnmálum hér á landi. Þetta á við um alla stjórn málaflokka, þótt valdbeitingarstefna komi skýrast fram hjá ráðherrum Alþýðubandalagsins. Sjálfstæðisflokkurinn er sagður bíða eftir “sterkum manni” á toppinn.

Hjá vestrænum lýðræðisþjóðum felst lýðræði ekki aðeins í, að kosið sé á nokkurra ára fresti, heldur er vald til framkvæmda takmarkað á ýmsan hátt, einkum í lögum um meðferð þess og um dreifingu ákvarðana á fleiri staði. Við viljum hins vegar “sterka menn”. Meðan Austur-Evrópa er að varpa frá sér miðstýringu úr ráðuneytum erum við að efla miðstýringu. Gott dæmi er útflutningur á ferskum fiski, sem er skipulagður og bannaður að ofan. Annað dæmi er, að lög frá Alþingi fela einkum í sér “heimildir” til ráðherra.

Ef einhver vandamál koma upp hér á landi, finnst fólki eðlilegast, að þeim sé vísað til “sterkra manna”, það er að segja til ráðherra. Mörgu fólki virðist finnast það þolanlegt, þótt þetta sérkennilega ráðherralýðræði leiði til ofstjórnar, hroka og ofbeldisaðgerða.

Ráðherralýðræðinu fylgir ofstjórn á borð við Aflamiðlun; hroki á borð við fyrirlitninguna á Umboðsmanni alþingis; og ofbeldisaðgerðir eins og gagnvart forstöðumanni og starfsfólki stöðvarinnar á Mógilsá. Þetta er frumstæði strengurinn í þjóðarsálinni.

Embættismannahrokinn á Íslandi minnir á átjándu öldina og ráðherraofbeldið á þriðja heiminn. Hvort tveggja er okkur til mikils trafala í vestrænum nútíma, svo sem þjóðir og stjórnmálamenn Austur-Evrópu hafa fyrir sitt leyti komizt að raun um og eru að afnema.

Vonandi leiðir hefndarþorsti landbúnaðarráðherra gagnvart Mógilsárfólki til, að Íslendingar átta sig betur á, að ráðherralýðræðið er úrelt og hættulegt fyrirbæri.

Jónas Kristjánsson

DV