Ráðherrann dýrkar ríkið

Punktar

BJÖRN BJARNASON er dómsmálaráðherra. Ráðuneyti hans hefur ákveðið, að ríkið setji upp myndavélar hjá sýslumönnum til að búa til myndir í nýja passa, sem fullnægja bandarískum kröfum um slíka passa.

STARFSBRÆÐUR BJÖRNS á Norðurlöndum hafa farið aðra leið. Þeir hafa sent ljósmyndurum skilgreiningar á þörfinni og þannig gert einkaframtakinu kleift að útvega sér tækjabúnað til að taka fullnægjandi ljósmyndir.

BJÖRN ER EKKI maður einkaframtaks, heldur ríkisforsjár. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar er honum til dæmis lokuð bók. Hann er fyrst og fremst embættismaður í hugsun. Honum finnst ríkið bezt og að það hafi ævinlega rétt fyrir sér, 100%.

BJÖRN ER ALINN UPP í Sjálfstæðisflokknum. Það er flokkur, sem einkum hefur verið stjórnað af embættismönnum og öðrum ríkisstarfsmönnum. Flokkurinn er hvorki frjálshyggju- né frjálslyndisflokkur, heldur embættismannaflokkur.

ÞÓTT FLOKKURINN komi stundum fram sem markaðshyggjuflokkur, stafar það bara af hagsmunum sjávarútvegsmanna og heildsala, sem ætíð hafa stutt flokkinn. Flokkurinn styður einkavæðingu til dæmis því aðeins, að hún komi vel svonefndum kolkrabba.

BJÖRN ER HORNSTEINN embættismannahyggju flokksins. Honum finnst bezt, að ríkið sjái um ljósmyndir í vegabréf, meðan starfsbræðrum hans á Norðurlöndum, þar á meðal krötunum, finnst bezt, að einkaframtakið sjái um slíkar ljósmyndir.

ÞVÍ ER EKKI FURÐA, þótt Björn sé óvinsælasti ráðherra Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir, meira að segja óvinsælli en Sturla Böðvarsson og Sigríður Anna Þórðardóttir, sem ekki eru hátt skrifuð í almenningsálitinu.

DV