Ráðherrar styðja eitrið

Greinar

Í fjárlagafrumvarpinu ræðst ríkisstjórnin sérstaklega að lækningastofnunum, sem hafa áfengis- og fíkniefnasjúklinga til meðferðar. Leggja á niður starfsemi, sem svarar til Staðarfells, Gunnarsholts og fíkniefnadeildar Vífilsstaða. Þetta er kúvending í heilbrigðisstefnunni.

Engin tegund lækninga hefur verið áhrifameiri en meðferð áfengis- og fíkniefnasjúklinga. Með skjótri notkun bandarískra vinnubragða hefur náðst árangur, sem felst í, að mörg þúsund útskrifaðir sjúklingar ganga til ábyrgra og sumpart mikilvægra starfa í þjóðfélaginu.

Engin tegund lækninga hefur verið ódýrari en meðferð áfengis- og fíkniefnasjúklinga. Með hinum bandarísku vinnubrögðum hefur tekizt að þurrka Íslendinga þúsundum saman fyrir upphæðir, sem samsvara einni viku á mann í hefðbundnum sjúkrahúsum landsins.

Íslendingar eru mjög næmir fyrir þessum flokki sjúkdóma, svo sem kemur fram í, að fimmti hver einstaklingur í hverjum árgangi þarf einhvern tíma á ævinni að leggjast inn á sjúkrahús af þessu tagi. Það er um það bil tvöföld tíðni á við engilsaxnesku þjóðirnar.

Notkun fíkniefna fer vaxandi hér á landi, meðal annars vegna niðurskurðar stjórnvalda á fjármagni til andófs gegn innflutningi þeirra; vegna trassaskapar yfirvalda við úrvinnslu fíkniefnamála og vegna vægra dóma á heildsölum fíkniefnadreifingarinnar.

Notkun áfengis stendur í stað hér á landi, meðal annars vegna þess, að ríkið telur sig þurfa að ná sem mestum tekjum af drykkjufólki landsins og vegna þess að æðstu menn þjóðarinnar ganga á undan öðrum með slæmu fordæmi í drykkjuskap á opinberum vettvangi.

Afleiðingar þessarar þjóðarfíknar má sjá á degi hverjum í fréttum fjölmiðla. Flestir glæpir, sem drýgðir eru hér á landi, tengjast meira eða minna áfengi eða fíkniefnum. Gildir það bæði um líkamlegt ofbeldi af ýmsu tagi og fjárhagsglæpi af öllu hugsanlegu tagi.

Með samræmdum aðgerðum gegn ofneyzlu áfengis og fíkniefna má draga verulega úr glæpum í þjóðfélaginu og spara þannig fjárhæðir, sem eru margfaldar á við þær, sem aðgerðirnar kosta. Í fjárlagafrumvarpinu hafnar ríkisstjórnin slíkum aðgerðum fyrir sitt leyti.

Í leiðurum DV hefur undanfarið verið bent á margfalt dýrari atriði, sem mættu að skaðlausu falla út úr fjárlagafrumvarpinu. Með því að velja þá liði og hafna aðgerðum gegn áfengis- og fíkniefnavanda þjóðarinnar er ríkisstjórnin að taka ábyrgðarlausa afstöðu.

Ríkisstjórnin tekur til dæmis stuðning við kýr og kindur fram yfir fjárveitingar til að stemma stigu við innflutningi og heildsölu fíkniefna og fjárveitingar til að koma áfengis- og fíkniefnaneytendum aftur til eðlilegra og heilbrigðra starfa í þjóðfélaginu.

Það er ekki fátækt, sem veldur því, að ríkisstjórnin vill einmitt skera sem mest niður á þessum sviðum. Orsökin er rangt val á milli málaflokka, það er afbrigðileg og sjúkleg forgangsröð í fjárlagafrumvarpinu, sem segir mikið um ráðherrana, er standa þar að baki.

Þjóðin stendur andspænis rosalegu vandamáli áfengis og fíkniefna og hefur jafnframt í höndunum tiltölulega ódýr tæki, sem hafa reynzt vel gegn vandamálinu. Ríkisstjórnin er að reyna að draga úr notkun þessara tækja eða taka þau alveg úr höndum þjóðarinnar.

Fjárlagafrumvarpið á eftir að fara um hendur alþingismanna. Vonandi átta þeir sig betur á tvísýnni stöðu þjóðarinnar í þessum efnum en ráðherrarnir gera.

Jónas Kristjánsson

DV