Ráðizt á heilsuhæli

Greinar

Ef Náttúrulækningafélagið fylgir eftir uppsögn starfsfólks með lokun heilsuhælisins í Hveragerði, mun koma í ljós, að þjóðfélagið þarf meira á hælinu að halda en það á þjóðfélaginu. Þá verður farið að leita að sökudólgum uppákomunnar, sem varð í kerfinu í síðustu viku.

Fyrir Náttúrulæknifélagið er eðlilegast að nota þetta tækifæri til að stefna að samstarfsslitum við ríkisvaldið og breyta heilsuhælinu í heilsuhótel, þar sem erlendir heilsuleysingjar geta fengið að borga fyrir heilsubót, sem er meiri en fæst víðast annars staðar í kerfinu.

Einnig er brýnt, að Náttúrulækningafélagið höfði mál gegn Læknafélaginu, sem hefur nú hafizt handa í annað sinn síðan það rak Sigvalda Kaldalóns úr félaginu sællar minningar. Tímabært er að fara að sækja einokunarfélög stétta til skaðabóta fyrir brottrekstrarhótanir.

Læknafélagið hefur hótað félagsmönnum brottrekstri, ef þeir sæki um störf á hælinu. Ef þetta ofbeldi félagsins stenzt gagnvart lögum, er brýnt að setja lög á Alþingi, sem banna slíkt ofbeldi stéttarfélaga. Það eru fleiri en læknar, sem verða siðblindir í félagsskap.

Ágreiningur lækna hælisins við hjúkrunarstjóra og hælisstjórn byggist á yfirfærslu AA-áfengisvarna á ofát, svo sem gert er í svokölluðum OA-samtökum. AA- aðferðin er raunar áhrifamesta og gagnlegasta lækningaaðferð, sem tekin hefur verið í notkun hér á landi.

Vísindalega séð verður AA-aðferðin ekki talin vera fyllilega sönnuð, þótt nærri fari. Meiri óvissa er um OA-yfirfærsluna, en hún er hættuminni en margt annað og ætti að njóta velvildar vafans. Að líkja þessum aðferðum við kukl er hroki úr læknum, sem lítið kunna.

Ef gera ætti fulla sönnunarkröfu á hendur öllum aðferðum við lækningar, er ljóst, að Bláa lónið á sér enga framtíð í kerfinu. Ef á að gera slíka kröfu á hendur öllum lyfjum, sem læknar vísa á, er hætt við að mikil hreinsun verði og ef til vill brýnni en sum önnur.

Ríkisendurskoðun hefur brotið bókhald hælisins til mergjar. Hvað snertir persónulegar ávirðingar hefur hún skýrt frá, að forstjórinn noti dýran forstjórabíl og hafi mikinn símakostnað. Ennfremur, að starfsfólk fái að borða í mötuneyti hælisins og kaupa þaðan mat.

Ef ekki er um annað að ræða af slíku tagi, ætti Ríkisendurskoðun að færa heilsuhælinu skrautritað skjal fyrir að vera til fyrirmyndar í skorti á persónulegri græðgi þess fólks, sem ber félagslega ábyrgð á rekstri heilsuhælis Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði.

Stóra málið í þessu dæmi er fjármögnun stofnkostnaðar. Um hana hefur lengi verið fjallað um í daggjaldanefnd og hafa menn ekki verið á eitt sáttir um þá málsmeðferð, sem hefð er komin á eftir mörg ár og áratugi. Hún hefur hingað til ekki verið talin glæpsamleg.

Sjúkrahús í eigu ríkisins fá fé til stofnkostnaðar á fjárlögum ríkisins. Þess vegna er stofnkostnaður þeirra ekki reiknaður til daggjalda. Stofnkostnaður við uppbyggingu hælisins í Hveragerði er hins vegar ekki á fjárlögum, þar sem það er ekki í eigu ríkisins.

Að grunni til er hælið í Hveragerði gjöf hugsjónafólks til Náttúrulækningafélagsins og árangur happdrættis þess félags. Eftir að þrengdist um á happdrættismarkaði hefur frekari uppbygging komið að mestu frá hinum umdeildu viðbótardaggjöldum, sem sumir segja ólögleg.

Ef ríkið og Læknafélagið ræna hælið hefðbundnum starfsvettvangi þess, mun þjóðfélagið tapa, en í staðinn munu græða útlendingar, sem hafa efni á að borga.

Jónas Kristjánsson

DV