Félagi hrossabænda hefur á fimm árum tekizt að auka útflutning á reiðhrossum úr 300 á ári upp í rúmlega 1000 á ári, án þess að skattgreiðendur séu látnir borga neinar útflutningsbætur. Þannig hefur tekizt að gera arðbæra eina grein landbúnaðarins.
Árangurinn í útflutningi reiðhrossa byggist á, að hin dauða hönd ríkisins hefur hvergi komið nærri. Búnaðarfélag Íslands hefur ekki sinnt þessum útflutningi, en hefur hins vegar á öðrum vettvangi verið önnum kafið við að spilla fyrir einkarekstri í hrossarækt.
Búnaðarfélagið sér um matskerfi á kynbótahrossum, sem hefur lengi verið umdeilt, en aldrei eins hastarlega og á þessu sumri. Matskerfið endurspeglar illa söluverðmæti reiðhrossa og byggist raunar á einkar óljósum forsendum, ræðst mest af einkasmekk ráðunautanna.
Þegar nýr og sérvitur ráðunautur kom til skjalanna hjá Búnaðarfélaginu á þessu sumri, sprakk allt í loft upp. Frægasti búgarður íslenzkra hrossa í heiminum sendir ekki lengur rauðblesóttu Kirkjubæjarhrossin á sýningar, þar sem ráðunautar Búnaðarfélagsins dæma.
Frægasti ræktandi íslenzkra hrossa í heiminum, sem hefur sett Sauðárkrók á landakort heimsbyggðarinnar, neitaði á landsmóti hestamanna í sumar að taka við verðlaunum annars sætis fyrir hryssu, sem þegar er sannað, að er ein af meginhryssum þessarar aldar.
Fulltrúar hrossabænda úr öllum fjórðungum komu sér saman um að skipa nefnd til að óska eftir, að nýi ráðunauturinn yrði gerður óskaðlegur. Ekki er vitað annað en, að næstum allir hrossabændur, sem hafa náð góðum árangri í sölu á reiðhrossum, hafi stutt óskina.
Búnaðarfélagið hefur ákveðið að hafna þessu. Ennfremur hefur það tilkynnt, að það muni hefna sín á hrossabændum með því að setja hinn umdeilda ráðunaut yfir útflutning á hrossum. Þetta eru skýr svör um, að pupullinn eigi ekki að abbast upp á yfirvaldið.
Ráðherrann getur komið í veg fyrir, að hin dauða hönd Búnaðarfélagsins og sérvitri ráðunauturinn eyðileggi hinn arðbæra útflutning á hrossum. Hins vegar vekur ugg, að hann hefur nýlega lýst óánægju með svokallað skipulagsleysi í útflutningi reiðhrossa.
Sumir bændur í Þistilfirði og víðar, sem ekki hafa náð árangri í hrossarækt, munu vafalaust fagna, ef ráðherra og Búnaðarfélag koma upp útflutningskerfi, sem gerir öllum kleift að losna við hrossin sín á þann hátt, að skattgreiðendum verði falið að greiða mismuninn.
Ef ráðherra hjálpar Búnaðarfélaginu til að búa til félagsmálapakka utan um hrossarækt og hrossaútflutning, má reikna með, að hrossabændur gefist upp og kyssi vöndinn. Til þess er leikur Búnaðarfélagsins gerður. Kerfið telur óeðlilegt, að menn séu með múður.
Búnaðarfélagið er ríkisrekin stofnun, sem er starfrækt með svipuðu hugarfari og ýmis ráðuneyti. Þetta hugarfar opinberra smákónga hefur lýst sér í viðbrögðum hér og þar í kerfinu við bréfum frá Umboðsmanni alþingis, svo sem rakið hefur verið hér í blaðinu.
Þegar pupullinn kom til yfirvaldsins fyrr á öldum, var látið nægja að salta bænarskrárnar. Nú sparkar yfirvaldið í pupulinn. Ofbeldishneigð hefur bætzt við valdhrokann. Þess vegna hefnir Búnaðarfélagið sín með því að siga hinum umdeilda ráðunauti á útflutninginn.
Meðan Austur-Evrópa er að taka upp vestræn markaðslögmál eru íslenzkir kerfiskarlar að reyna að taka upp aflagða siði austræna í útflutningsverzlun hrossa.
Jónas Kristjánsson
DV