Ráðlausir landsfeður

Greinar

Landsfeður ættu að segja okkur, hvernig þeir hyggist bregðast við ýmsum vanda, sem steðjar að þjóðinni, á þann hátt, að hann verði að verkefni til að leysa. Þetta gera landsfeður ekki, af því að þeir vita ekki, hvernig skuli bregðast við, eða vita ekki, að vandinn sé til.

Dæmi um þetta er Evrópska efnahagssvæðið, sem farið er út um þúfur. Komið hefur í ljós, að nokkur ríki innan Efnahagsbandalagsins telja sig þurfa að gæta staðbundinna sjávarútvegshagsmuna og munu ekki fallast á neina niðurstöðu, sem kemur Íslandi að gagni.

Unnt er að skilja þessi þröngu sjónarmið, sem eru hin sömu og ráða landbúnaðarstefnu íslenzkra stjórnvalda. Einangrunar- og haftastefna er eins vinsæl í höfuðstöðvum Evrópubandalagsins og hún er í landbúnaðarráðuneyti Íslands. Af því súpum við seyðið.

Jafnvel þótt bjartsýnismenn geti ímyndað sér, að þjóðir Evrópubandalagsins þurfi íslenzkan fisk, munu viðsemjendur okkar ekki líta þannig á málin. Þeir eru fyllilega færir um að tefla málinu í þá stöðu, að útflutningur á fiski frá Íslandi verði sífellt erfiðari.

Íslenzkir landsfeður ættu því að segja okkur, hvernig þeir hyggist tefla málum í þá stöðu, að við eigum um langan aldur kost á arðbærri fríverzlun við fleiri aðila en í Evrópu einni, sem nú borgar hæst verð, meðal annars vegna þess að ferskur fiskur fer mest þangað.

Landsfeður mættu svara þeirri spurningu, hvort gáfulegt sé að leggja steina í götu á afurðinni, sem gefur bezt, svokölluðum “óunnum” fiski, það er að segja ætum fiski. Þeir mættu líka svara, hvort gáfulegt sé að leyfa Flugleiðum að einoka afgreiðslu á ferskfiskflugi.

Annað dæmi er álverið á Keilisnesi, sem hefur þegar kostað okkur orkuver við Blöndu með hækkun á rafmagnsreikningum heimilanna. Þetta álver átti að reka á undirverði rafmagns. Markmiðið með því virðist af okkar hálfu vera að fá framkvæmdir í landið í örfá ár.

Ef hraður samdráttur í vopnabúnaði risaveldanna leiðir til hruns í hergagnaiðnaði og minnkandi sölu áls í heiminum, má búast við, að álverið verði ekki reist. Hvað ætla landsfeður þá að gera við Blönduver annað en að senda reikninga þess til almennings?

Þriðja dæmið er samdráttur í fiskafla, sem virðist stafa af ofveiði, úr því að fleiri lélegir árgangar hafa komið í röð en áður hefur þekkzt. Landsfeður hafa ekki skýrt fyrir okkur, hvernig þeir hyggist mæta þeim vanda, að útflutningstekjur verði litlar á næstu árum.

Fjórða dæmið er skeytingarleysi landsfeðra um fjármögnun á tveimur risavöxnum vandamálum, sem hafa hlaðizt upp, annars vegar lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna og hins vegar peningabrennslusjóðum, sem landsfeður hafa komið á fót við Rauðarárstíg.

Fimmta dæmið er nýr búvörusamningur, sem landsfeður virðast ætla að þola fyrir okkar hönd, þótt ljóst sé, að hann tekur á hverju ári nokkra milljarða af möguleikum okkar til að fást við vandamál eða verkefni á borð við fjögur dæmin, er hér hafa verið rakin.

Í stað þess að reyna að skilja þessi vandamál, svo að þeir geti sagt okkur frá tillögum um, hvernig megi leysa þau, eru landsfeður önnum kafnir við að kaupa sér Kadillakka; skipuleggja ferðalög til útlanda til að drýgja tekjur sínar; og halda vinum sínum dúfnaveizlur.

Við erum að sigla inn í langvinna kreppu, sumpart af völdum landsfeðra, án þess að þeir geti útskýrt fyrir sjálfum sér eða öðrum, hvernig eigi að mæta henni.

Jónas Kristjánsson

DV