Ráðuneyti játar sukkið

Greinar

Talsmaður landbúnaðarins hefur krafizt, að starfsmaður við Háskóla Íslands verði rekinn fyrir að segja útgjöld ríkisins í útflutningsuppbætur vera hærri en hagsmunaaðilar landbúnaðarins halda fram. Þeir segja þessar uppbætur nema 800­900 milljónum króna.

Slíkar kröfur heyrast öðru hverju í umræðunni um landbúnað. Talsmenn landbúnaðarins beita þeim stundum, er þeir eru komnir út í horn og geta ekki lengur varizt. Í kröfunni felast leifar sama hugsunarháttar og hjá ráðamönnum í Austur-Evrópu til skamms tíma.

Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur hjá háskólanum, hefur samt rétt fyrir sér. Fjármálaráðuneytið hefur staðfest í bréfi frá 19. þessa mánaðar, að það telur liðinn “uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir” hafa numið 1617 milljónum króna í fyrra, en ekki 900 milljónum.

Í bréfi ráðuneytisins kemur fram, að þessi liður skiptist í tvennt, eins og hann hefur gert í nokkur ár, síðan farið var að greiða hluta bótanna í svokallaðan Framleiðnisjóð. Skiptingin í fyrra fólst í 490 milljónum í Framleiðnisjóð og 1127 milljónum í hefðbundnar uppbætur.

Athyglisvert er, að Alþingi hafði upphaflega gert ráð fyrir, að 610 milljónir færu í hinar hefðbundnu útflutningsuppbætur. Þannig voru fjárlög afgreidd. En smám saman leyfði ríkisstjórnin sér að bæta 507 milljónum ofan á, svo að uppbætur ársins komust í 1127 milljónir.

Formaður fjárveitinganefndar, Sighvatur Björgvinsson, hefur boðað nýja siði: Alþingi muni reyna að hindra ríkisstjórn í að eyða peningum, sem hún má ekki samkvæmt fjárlögum. Er ætlunin að fá Alþingi til að samþykkja frumvarp um það efni á því þingi, sem nú situr.

Tilefni fyrirhugaðra laga er gífurleg misnotkun ríkisstjórna á svokölluðum aukafjárveitingum utan ramma fjárlaga. Þessi misnotkun kemur einkum fram í útgjöldum til landbúnaðar, sem á hverju ári fara langt fram úr þeim upphæðum, sem skammtaðar hafa verið.

Í fyrra hafði fjárveitingavaldið skammtað landbúnaðarráðuneytinu 2877 milljónir króna til allra annarra hluta en niðurgreiðslna. Í raun fóru útgjöld ráðuneytisins upp í 3815 milljónir. Það felur í sér ólöglega aukningu ráðuneytisins um 938 milljónir á því ári einu.

Svipaða sögu er að segja um niðurgreiðslur á vöruverði, sem eru styrkur til landbúnaðar, af því að þær beinast að afar dýrum afurðum hins hefðbundna landbúnaðar, en ekki að ódýrum matvælum, sem almenningur kaupir, svo sem brauði, öðrum kornmat og fiski.

Alþingi hafði skammtað stjórnvöldum 3353 milljónir króna í fyrra til niðurgreiðslu á afurðum úr landbúnaði Þegar ríkisstjórnin var búin að leika lausum hala allt árið, var útgjaldaupphæðin á þessum lið komin upp í 4272 milljónir króna. Er það 919 milljón króna hækkun.

Þannig tókst ríkisstjórninni í fyrra að greiða 1857 milljónum meira til landbúnaðar en henni var heimilt að gera samkvæmt fjárlögum. Hafa menn verið settir inn hér á landi fyrir minni óreiðu í fjármálum. Það er von, að fjárveitinganefnd vilji stemma stigu við slíku.

Fróðlegt er, að bréf fjármálaráðuneytisins frá 19. þessa mánaðar játar, að útgjöld til niðurgreiðslna og annarra landbúnaðarmála námu í fyrra 8087 milljónum króna, sem er ríflega sú upphæð, er gagnrýnendur landbúnaðar hafa talað um á síðustu mánuðum.

Svo er önnur saga, að þessir átta milljarðar eru notaðir til að halda uppi einokun, sem kostar neytendur sjö milljarða króna til viðbótar í óðeðlilegu vöruverði.

Jónas Kristjánsson

DV