Efnahags- og atvinnuframtíð Íslendinga felst ekki í essunum fjölmörgu. Hún felst ekki í sykuriðju, steinullariðju, saltiðju, stáliðju og jafnvel ekki í stóriðju, nema að mjög takmörkuðu leyti. Hún felst yfirleitt ekki í neinu, þar sem ríkinu er ætlað að borga verulegan kostnað.
Orkufrekur iðnaður er nytsamlegur, ef ríkið lætur sér nægja að reisa orkuver út á trygg viðskipti, sem afskrifi orkuverin á hæfilegum tíma. Hins vegar er innlent fé svo lítið og erlendar skuldir svo miklar, að ekki er verjandi að leggja peninga í orkufrekan iðnað.
Þá peninga, sem þjóðin á, og þá, sem hún treystir sér til að taka að láni, á að nota í iðnað, sem ekki krefst mikillar fjárfestingar að baki hvers atvinnutækifæris. Við höfum skínandi dæmi um þá möguleika. Fiskeldi er komið á strik og tölvutækni fylgir fast á eftir, hvort tveggja af eigin rammleik.
Gæluverksmiðjurnar, sem verið er að byggja eða stendur til að byggja að verulegu leyti á kostnað ríkisins og skattborgaranna, þurfa mikla fjárfestingu á hvern starfsmann. Þetta er alvarlegt í járnblendinu á Grundartanga og verður enn verra í kísiliðjunni á Reyðarfirði.
Við sóum meira en nógu af takmörkuðu fé þjóðarinnar og af dýru lánsfé í hefðbundnar og úreltar atvinnugreinar á borð við sauðfé og kýr, þótt við bætum ekki á okkur byrðum á borð við hin nýju gæludýr ríkisins í steinull og salti, járnblendi og kísli, sykri og stáli.
Um þessar mundir er töluvert dreymt um glæsta framtíð í líftækni. Margir telja , að við getum þar farið sömu leið og í tölvutækninni, til dæmis notað sérstöðu okkar í sjávarútvegi til að þróa tækni á afmörkuðum sviðum, sem milljónafyrirtæki stórþjóðanna sinna ekki.
Til viðbótar dreymir menn um, að jarðhitinn færi okkur ekki aðeins orku til notkunar í líftækni, heldur einnig sérstæðar tegundir af örverum, sem þrífast í miklum hita og brennisteinssýru íslenzkra hvera. Allt er þetta mjög spennandi, en á auðvitað langt í land.
Verkefni okkar í líftækni ættu helzt að vera á sviði háskólakennslu og rannsókna til undirbúnings hugsanlegum efnahagsávinningi í framtíðinni. Um leið megum við ekki gleyma, að enn nærtækara er að efla háskólakennslu og rannsóknir í fiskeldi og tölvutækni.
Ekki dugir, að fiskeldi sé aðeins kennt við bændaskóla. Á háskólastigi þurfum við að efla líffræði og fiskifræði, sem gagnast í fiskeldi. Íslendingar eru með ráðagerðir um fiskeldi í öðrum hverjum firði, en skortir fólk með trausta þekkingu á þessu sviði.
Ekki er síður nauðsynlegt, að ríkið hætti að sóa dýrmætu fé í úreltar greinar og gæluverkefni og beini fjármagninu í staðinn að grein eins og fiskeldi, sem þegar hefur sannað gildi sitt, – sem vaxið hefur upp úr grasrótinni án umtalsverðrar opinberrar aðstoðar.
Tölvutæknin er ekki eins langt komin, en hefur þó sannað tilverurétt sinn í ýmsum smáfyrirtækjum, ekki bara í Reykjavík, heldur líka úti á landi. Meðan fiskeldið þarf bara venjulegt lánsfé, þarf tölvutæknin áhættufé, því að margar ráðagerðirnar munu mistakast.
Ríkið á ekki að sá peningum í grýtta jörð. Það á að hlúa að grasrótinni á þeim stöðum, þar sem grös hafa reynzt spretta af sjálfsdáðum. Það á vitanlega að halda opnum möguleikum á líftækni. En fyrst og fremst ber að magna kennslu, vísindi og fjármagn og aftur fjármagn í fiskirækt og tölvutækni. Þar er efnahags- og atvinnuframtíð okkar.
Jónas Kristjánsson.
DV