Rætur heimsfrægðar

Greinar

Erlend dagblöð á borð við New York Times eru farin að fjalla fjálglega um fyrirbæri á borð við Apparat, Náttfara og Trabant. Þetta eru íslenzkar hljómsveitir, sem tæpast geta talizt landsþekktar, en eru eigi að síður orðnar heimsþekktar í veröld alþýðlegrar tónlistar.

Þetta hófst með Björk, sem amerísku blöðin segja frægasta Íslending allra tíma, frægari en Leif Eiríksson. New York Times vitnar með velþóknun í Jón Hákon Magnússon, sem segir Björk vera vörumerki Íslands á sama hátt og Volvo fyrir Svíþjóð og Nokia fyrir Finnland.

Blaðamennirnir Neil Strauss og Donald G. McNeil hafa nýlega skrifað langar greinar í New York Times um Björk og eftirkomendur hennar í alþýðlegri tónlist á Íslandi. Þeir segja, að útgefendur tónlistar í Bandaríkjunum hafi fallið fyrir Íslandi sem jarðvegi tónlistar.

Útgefendurnir hafi komið á tónlistarhátíðina í haust og búizt við endurtekningum fyrri hátíða, en komizt að raun um nýjar hljómsveitir með nýjar áherzlur. Margir þeirra telji, að gæði og breidd íslenzkrar alþýðutónlistar hafi farið vaxandi með hverju ári í rúman áratug.

Þessi gæðastimpill skiptir miklu, ekki sízt fyrir marga unga tónlistarmenn, sem hafa náð eyrum fólks, er skiptir máli í alþjóðlegum tónlistarheimi. Búast má við, að fleiri reyni að feta í fótspor Bjarkar og Sigur Rósar, sem einnig nýtur mærðar í greinum erlendu blaðamannanna.

Áhrifin í ferðaþjónustunni eru mikil. Flugfélagið Go flytur brezk ungmenni hópum saman til heimabæjar Bjarkar til að sjá “Björkville” og taka þátt í andrúmslofti reykvískra kaffihúsa og kráa. Tilraunastarf íslenzkrar alþýðutónlistar skilar sér í beinhörðum peningum.

Athyglisvert er, að nánast allt þetta fólk, sem náð hefur eyrum umheimsins, er vel menntað í tónlistarskólum landsins, allt frá Björk og Sigur Rós. Tilraunirnar í alþýðutónlistinni hvíla á grunni þekkingar, sem unga fólkið hefur aflað sér í opinberum tónlistarskólum.

Fyrir einhverja sagnfræðilega tilviljun, sem hér er ekki rúm til að kanna, var á sínum tíma ákveðið að stofna mætti tónlistarskóla með kennurum á launum hjá hinu opinbera. Tónlistarskólar risu í öllum sveitarfélögum, sem vildu telja sig gjaldgeng í nútímanum.

Þetta var svo mikil sprenging, að ekki voru handbærir kennarar til að standa undir öllu þessu starfi. Kennaraskorturinn var leystur með að flytja inn erlenda tónlistarmenn, sem margir voru afar vel færir og menntaðir og urðu lykilpersónur í tónlistarlífi um allt land.

Þannig fór tvennt saman. Opinberir aðilar skrúfuðu frá sjálfvirkum krönum fjármagns og tónlistarmenning var flutt inn frá útlöndum. Þetta var mikilvægur þáttur í grunninum að sigurför íslenzkrar alþýðutónlistar, sem nú endurspeglast á síðum erlendra stórblaða.

Spyrja verður, hvort svipaður árangur hefði náðst á öðrum sviðum, ef ríkið hefði boðið upp á sjálfvirka fjármögnun á fræðslu og flutt hefði verið inn erlent hæfileikafólk. Ættum við fleiri málara en Erró? Ættum við fleiri framleiðendur kvikmynda en Friðrik?

Annars vegar er breiðsíða alþjóðlegra viðurkenndra afreka í alþýðutónlist og hins vegar örfáir einstaklingar í öðrum greinum lista á borð við myndlist og kvikmyndir. Er munurinn sá, að hér voru tónlistarskólar úti um allar koppagrundir með innfluttri tónlistarmenningu?

Áleitið er að spyrja, hvort lítið þjóðfélag geti með markvissri skólastefnu hins opinbera og innflutningi hæfileikafólks náð árangri á hvaða sviði sem er.

Jónas Kristjánsson

DV