Rætur kynþáttahaturs

Greinar

Eftir ósigra í Burgenlandi og Styriu í fyrra hefur kynþáttahatursflokkur Jörgs Haider enn tapað í héraðskosningum í Austurríki, í þetta sinn í Vínarborg, þar sem fylgið fór úr 28% niður í 20% um helgina. Saman er þetta þrennt vísbending um, að sóknin hafi stöðvazt.

Svipað hefur verið að gerast í ýmsum öðrum löndum Vestur-Evrópu. Kynþáttahatarar í Noregi hafa átt í erfiðleikum að undanförnu. Flokkur þeirra í Frakklandi hefur klofnað og tapað fulltrúum í kosningum. Í Danmörku hefur flokkur þeirra ekki náð neinu flugi enn.

Annars staðar eru þetta víðast hvar áhrifalausir smáflokkar á jaðrinum. Óeðlilega háar fylgistölur í Austurríki benda til, að þar séu sérstakar aðstæður, sem séu víti til að varast. Oftast hefur samanburðar verið leitað við Þýzkaland, þar sem kynþáttahatarar fá lítið fylgi.

Eftir síðari heimsstyrjöldina hreinsuðu Þjóðverjar sig af nazismanum og Hitler, voru einlægir í sinni yfirbót og voru á þeim grundvelli teknir inn í samfélag vestrænna þjóða. Austurríki, föðurland Hitlers, gerði hins vegar enga yfirbót á virkri aðild sinni að nazismanum.

Síðan gerðist það á síðasta áratug tuttugustu aldar, að flóttamenn frá styrjöldum og fjöldamorðum Balkanskaga flúðu hópum saman norður til Austurríkis, þar á meðal mikill fjöldi múslíma, sem skera sig á ýmsan hátt úr austurrísku þjóðfélagi, til dæmis í klæðaburði.

Ætla hefði mátt, að Austurríkismenn væru vanir fjölbreytni í háttum og siðum, því að landið er afgangur af fyrstu tilrauninni frá tímum Rómarveldis til að búa til fjölþjóða stórveldi með virkri þátttöku margra þjóða, svo sem Ungverja, Tékka, Slóvena og Feneyinga.

En munurinn er sá, að hinar mörgu þjóðir keisaradæmis Habsborgara í Vínarborg sameinuðust allar í kaþólskri trú. Þótt alls konar og ólík tungumál hafi öldum saman verið töluð á götum borgarinnar, var fólkið allt af sama menningarheimi hins heilaga keisaradæmis.

Hinir nýju innflytjendur í Vínarborg fylgja hins vegar margir grísku kirkjunni, sem ræður ríkjum í Serbíu og enn fleiri játa trú á Allah, sem er við völd í Bosníu og Kosovo. Þeir koma af svæðum, sem öldum saman tilheyrðu öðru stórveldi, soldánsins í Miklagarði.

Reynslan sýnir, að fólk á tiltölulega auðvelt með að samlagast innan menningarheima, en lendir í vanda, ef það flytur milli þeirra. Þannig eiga allar vesturkristnar þjóðir auðvelt með að taka sameiginlega þátt í vestrænu lýðræði. Pólverjar samlagast til dæmis Íslendingum.

Fólk frá menningarheimi Íslams flytur hins vegar með sér önnur sjónarmið, þegar það kemur til Vesturlanda og á erfitt með að laga sig að vestrænum háttum. Til dæmis er staða múslímskra kvenna svo miklu veikari en vestrænna, að það jaðrar við lögbrot á Vesturlöndum.

Eðlilegt er, að vestrænar þjóðir vilji ekki samþykkja, að sumir hættir múslíma flytjist með þeim. Þannig hafa Frakkar reynt að tyrkneskri fyrirmynd að banna andlitsslæður stúlkna og kvenna í skólum. Mál af svipuðu tagi eru farin að koma upp hjá hótelkeðju í Noregi.

Að vestrænni sýn er slæðan tákn um undirgefni konunnar og er þannig opinber yfirlýsing, sem stangast á við grundvöll vestræns lýðræðis, jafnrétti kynjanna. Að mati múslíma eru opinber afskipti af slæðum hins vegar dæmi um menningarlegt ofbeldi stjórnvalda.

Þverstæðan í öllu þessu er, að það er ekki ímyndaður líkamlegur munur kynþátta, sem veldur mestum vanda, heldur raunverulegur munur menningarheima.

Jónas Kristjánsson

DV