Kristjana Samper:
Alltaf þarf að vera viðbúin hættulegum stundum. Einu sinni vorum við að fara yfir Köldukvísl við Hágöngur í vexti, þegar allir lausu hestarnir okkar sneru við í miðri á og fóru niður eftir henni. Óráðlegt var að elta þá í straumþungri ánni, svo að ég (Kristjana) kallaði og kallaði til þess fremsta með nafni og á endanum hlustaði hann, sneri við og kom á eftir hópnum. Við svona aðstæður þarf að vera vant fólk á öllum póstum, í forreið og eftirreið.
Á ferð í Laxárdal í Þingeyjarsýslu setti ég (Kristjana) hausinn í rafmagnsgirðingu. Við höfðum skilið við Baltasar veikan eftir í vegkantinum, ég var búin að vera með hausverk og við vorum að koma upp rafmagnsgirðingu á opnu svæði. Ég var þá með sítt hár, sett upp í hnút, sem var festur með málmspennu.
Rafmagnið var komið á og ég var að skríða undir girðinguna, þegar ég festi spennuna í vírnum. Ég varð að hanga í henni meðan ég var að vekja athygli á vandræðum mínum. Þá fékk ég að kynnast rafstraumi, því ég fékk hvert höggið á fætur öðru, áður en menn tóku eftir þessu og slökktu á stöðinni. Þegar ég stóð svo upp, fann ég að hausverkurinn var horfinn. Ég veit ekki, hvort þetta er algild hrossalækning við slíkum verk.
Fyrir tveimur árum vorum við hluta úr leið í samfloti með heimahestum, sem höfðu vanið sig á að fara yfir pípuhlið. Þeir gerðu það og helzti gæðingurinn hans Baltasars stökk á eftir þeim. Samt var maður með písk á grindinni.
Hesturinn festist í grindinni, en gat sem betur kraflað sig upp. Hann slasaðist ekki alvarlega, en húðin á öðrum afturfætinum lafði niður eins og sokkur. Þá kom sér vel að hafa hestakerru undir trússinu. Við losuðum hana í hvelli og komum hestinum til Akureyrar, þegar dýralæknir var búinn að gera að honum. Þar var hann svo í gæzlu hjá lækninum, þangað til ferðinni lauk.
Það hefur áður komið fyrir hjá okkur, að heimahestar hafa farið yfir pípur, þótt ekki færi neinn á eftir þeim í það skiptið. Þessar pípur eru stórhættulegar og í mörgum tilvikum óþarfar, hálffullar af sandi og möl. Oft er líka svo, að við þurfum að fara um þröng hlið, sem eru fast við pípurnar, svo að fyrirstaðan á þeim getur verið erfið. Það liggur við, að setja þurfi band á pípuhlið, hvenær sem maður kemur að þeim.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 6.tbl. 2003