Ragnarökin brugðust

Greinar

Fyrir meira en fjörutíu öldum var upplýst á egypzkri steinristu, að heimur versnandi færi. Æ síðan hafa heimsendaspár verið vinsælar. Raunar hafa ragnarök og dómsdagur orðið að hornsteini mikilvægra trúarbragða og á þessari öld tilefni fræðilegra trúarbragða.

Margir tóku trú á bók Rachel Carson, Vorið þagnar, sem kom út 1963. Síðan tók við bók Paul Ehrlich, Fólksfjölgunarsprengjan, sem kom út 1968. Endimörk vaxtar eftir Meadows og Meadows kom út 1972 og Hin sökkvandi örk eftir Norman Myers kom út 1979.

Skemmst er frá því að segja, að spár þessara bóka rættust ekki. Fólksfjölgun hefur hægt mikið á sér og mun stöðvast við ellefu milljarða. Fátækt og hungur fer jafnt og þétt minnkandi. Nóg verður lengi enn til af olíu og annarri orku og nóg af öllum mikilvægum málmum.

Þótt menn hafi glatað trú á ofangreindar bækur, ganga enn aftur tölur og fullyrðingar úr þeim. Ennfremur hafa komið til skjalanna nýir spámenn. Fremstur þeirra er Lester Brown, sem rekur Worldwatch Institute og gefur á hverju ári út svartsýnt ársrit um Ástand heimsins.

Nú er komin út á íslenzku dönsk bók eftir Bjørn Lomborg, Hið sanna ástand heimsins, þar sem hann fer yfir ýmsar tölur og fullyrðingar ofangreindra bóka og ársrita og annarra slíkra og kemst að þeirri niðurstöðu, að ástand heimsins sé allt annað og betra en þar er lýst.

Dæmigert um þetta er súra regnið, sem var ógnvaldurinn um 1989, en hefur fallið í gleymsku, þegar skógarnir létu undir höfuð leggjast að deyja. Annað er fullyrðingin um, að regnskógarnir séu að hrynja, sem einkum er haldið fram af Claude Martin hjá World Wildlife Fund.

Staðreyndin er sú, að skógar hafa nánast ekki minnkað og að enn standa eftir 80% af upprunalegum regnskógum. Minnkunin nemur um 0,7% á ári. Aðeins 5% af skógum heims standa undir allri timbur- og pappírsþörf mannkyns. Pappírsskógar Norðurlanda eru sjálfbærir.

Þar með er ekki sagt, að menn eigi að sætta sig við minnkun regnskóga, aðeins að menn eigi að miða við réttar tölur, þegar þeir fjalla um málið. Ástand umhverfisins er ekki nógu gott, en það er ekki eins afleitt og margir vilja vera láta og í flestum tilvikum endurnýjanlegt.

Nóg er til af góðu drykkjarvatni í heiminum, en misjafnt eftir stöðum og víðast hvar er illa er farið með það, einkum í fátæku löndunum. Úthöf og strendur eru fljót að jafna sig eftir heimsfræga olíuleka. Sorp og eiturefni hlaðast ekki upp í umhverfinu í hættulegum mæli.

Enginn fótur er fyrir þeirri margnotuðu tölu, að 40.000 tegundir lífvera deyi út á hverju ári. Það er vitleysa upp úr bók Myers, sem menn éta hver upp eftir öðrum, Edward O. Wilson með mestum árangri árið 1992 í bókinni Fjölbreytni lífsins. Rétt tala er innan við 400.

Sumpart hafa hrakspár ekki rætzt vegna þess að fólk hefur gripið í taumana. Árið 1987 var samið um bann við notkun ózoneyðandi efna. Samkvæmt því eiga ózongöt himinhvolfsins að vera í hámarki í ár og minnka síðan. Spennandi verður að vita, hvort það gerist.

Við þurfum ekki heimsendaspár til að vita, að hvorki sjávarútvegur né landbúnaður Íslands eru sjálfbærir. Við sjáum, að afli flestra nytjafiska fer jafnt og þétt minnkandi á hverju ári. Og við vitum, að miklu af gróðurþekju Íslands hefur verið eytt á ellefu öldum Íslandsbyggðar.

Bók Lomborgs er gagnleg, því að hún segir öllum, sem vilja vernda umhverfi mannkyns, að til langs tíma er farsælast að fara með réttar tölur um aðsteðjandi vanda.

Jónas Kristjánsson

DV