Rakalaus kvótaaukning

Greinar

Engin málefnaleg rök hníga að aukningu þorskveiðikvóta núna á miðju kvótaári, þótt komið hafi í ljós, að meiri þorskur sé í sjónum en áður hafði verið gert ráð fyrir. Við upphaf kvótaársins var þegar búið að heimila 15.000 tonn umfram það, sem ráðlegt þótti þá.

Þá var ríkisstjórnin búin að samþykkja aflareglu, sem fól í sér, að árlega verði nýtt 25% af veiðistofni þorsks. Aflareglan byggðist á langvinnum rannsóknum fiskifræðinga og hagfræðinga á því, hvernig hagkvæmast væri að byggja upp og nýta þorskstofninn við landið.

Af því að kjarkur stjórnmálamanna er jafnan lítill, þegar á reynir, var farið 15.000 tonnum umfram þessa samþykktu reglu, þegar kvóti ársins var ákveðinn. Ríkisstjórnin stóðst ekki í haust þrýsting vinsældakapphlaupara á Alþingi.

Ráðherrar og aðrir vinsældakapphlauparar fara með rangt mál, þegar þeir halda fram, að þorskveiðirallið sýni, að óhætt sé að veiða meira en kvótann. Rallið sýnir ekki annað en, að óhætt er að veiða kvótann, en ekkert umfram hann. Það eru staðreyndir málsins.

Ef nýjasta þorskveiðirallið hefði leitt í ljós, að heldur minni þorskur væri í sjónum en gert var ráð fyrir í haust, hefðu engir vinsældakapphlauparar á Alþingi haft uppi kröfur um að kvótinn yrði skyndilega minnkaður á miðju kvótaári.

En þeir eru á fullri ferð um þessar mundir, af því að rallið hefur sýnt, að þorskurinn er heldur meiri en gert var ráð fyrir. Samt er gildandi kvóti svo mikill, að hann er í samræmi við nýja stofnmatið. Hagsmunaaðilarnir hafa fengið að éta út aukninguna fyrirfram.

Athyglisvert er, að skekkjureikningar vinsældakapphlaupara hníga alltaf í sömu átt til aukins afla. Þeir miða alltaf við grunntölu plús einhverja sveiflu, en aldrei mínus neina sveiflu. Þannig hefur þorskstofninn verið keyrður niður í sögulegt lágmark.

Þessir vinsældakapphlauparar bera ábyrgð á, að þorskstofninn hrundi. Þeir hafa verið við völd í ríkisstjórn og á Alþingi allan þann tíma, er þorskstofninn snarminnkaði frá ári til árs. Orð þeirra nú eru marklaust fleipur.

Þegar loksins hefur með ærnu erfiði tekizt að finna 25% aflaregluna, sem að beztu manna yfirsýn nægir til að efla stofninn og hafa nýtingu hans í skynsamlegu hámarki, vilja þessir marklausu og ábyrgðarlausu aðilar brjóta hana af skammsýni á miðju kvótaári.

Aðilarnir, sem sjávarútvegsráðherra hefur haft samráð við um helgina, gáfu misvísandi svör. Aðeins smábátaeigendur og sumir yfirmenn fiskiskipa vildu auka kvótann. En sjómenn, vélstjórar og útgerðarmenn vildu halda honum óbreyttum. Vonandi verður sjávarútvegsráðherra sammála hinum síðuranefndu.

Fyrir helgina voru stjórnmálamenn, sem þekktastir allra eru að eltingaleik við skammtíma upphlaupsmál, farnir að heimta aukinn þorskkvóta. Af forsögu þessara sömu stjórnmálamanna má ráða, að þeir ráða ekki heilt, hvorki í þessu máli né neinu öðru, sem þeir káfa á.

Upphlaupið í þjóðfélaginu vegna jákvæðrar niðurstöðu þorskveiðirallsins sýnir, hversu lítið þanþol þjóðin hefur. Hvenær sem glæta sést í einhverjum búskap, eru menn roknir upp til handa og fóta til að eyða hagnaðinum fyrirfram. Biðlund og úthald eru í lágmarki.

Órökrétt aukning þorskveiðikvóta á miðju kvótatímabili væri enn ein staðfesting þess, að þjóðin og stjórnin eigi afar erfitt með að sjá fótum sínum forráð.

Jónas Kristjánsson

DV