Rakalaus Landsvirkjun

Greinar

Landsvirkjun fékk sér nýlega hagfræðing til að reikna út, að stórorkuver og stóriðjuver undanfarinna ára hafi verið hagkvæm. Hann komst að þessari niðurstöðu að hætti Landsvirkjunar með því að líta fram hjá liðum, sem eru nauðsynlegir í reikningsdæminu.

Kostnaður við virkjun Blöndu var ekki tekinn inn í reikningsdæmið fyrr en árið 1995, þótt orkuverið hafi verið reist á grundvelli stóriðjudrauma, sem brugðust. Almennir notendur voru árum saman látnir borga virkjun, sem hafði stóriðju að helztu forsendu.

Miklu mikilvægari þáttur er, að hvorki Landsvirkjun né hinn leigði hagfræðingur hennar gera nokkra tilraun til að meta til fjár aðra hagsmuni, sem sumpart stangast á við hagsmuni fyrirtækisins, svo sem hagsmuni ósnortins víðernis, sem eru almannahagsmunir.

Landsvirkjun er hvorki ríkið né þjóðin. Það, sem kann að vera gott fyrir Landsvirkjun, þegar hún hefur hagrætt Blöndu í reikningsdæmi sínu, þarf ekki að vera gott fyrir ríkið eða þjóðina. Til eru aðrir hagsmunir, svo sem hagsmunir ferðaþjónustu og hagsmunir lífsgæða.

Ferðaþjónusta er stærri þáttur þjóðarbúsins en stóriðjan og veitir margfalt fleira fólki atvinnu, þar á meðal úti á landi, svo sem á Austfjörðum. Ferðaþjónusta hefur vaxið örar en aðrar atvinnugreinar á landinu og á enn bjartari framtíð, ef söluvara hennar fer batnandi.

Ekki þarf lengi að fletta íslenzkum ferðabæklingum eða tímaritinu Iceland Review til að sjá, að mikilvægasta söluvara íslenzkrar ferðaþjónustu er ósnortið víðerni, þar sem ekki sjást nein mannvirki. Með framgangi hugsjóna Landsvirkjunar rýrnar þessi söluvara.

Sú sérstaða Íslands að geta enn boðið ósnortin víðerni til skoðunar er áþreifanleg stærð í þjóðhagsreikningum og getur orðið margfalt stærri, ef rök verða tekin fram yfir tilfinningar nærsýnnar Landsvirkjunar. Við þurfum að taka þessa stærð skýrar inn í þjóðhagsspár.

Útgefendur ferðabæklinga og landkynningarrita höfða til þess, að ósnortið víðerni landsins geti hlaðið rafhlöður þreyttra og strekktra borgarbúa í útlöndum. Svipað hlýtur að gilda um rafhlöður Íslendinga sjálfra, sem einnig þurfa að hvílast eftir amstur hversdagsins.

Þáttur ósnortins víðernis í lífsgæðum okkar er hluti af reikningsdæmi okkar, rétt eins og aðgangur okkar að skólum og sjúkrahúsum. Þetta eru verðmæti, sem hljóta að verða þáttur í útreikningi þjóðhagsstærða í náinni framtíð, rétt eins og ferðaþjónustan er orðin.

Við höfum vítin að varast sums staðar í útlöndum, svo sem í Rússlandi, þar sem óheft stóriðjustefna hefur eitrað land og loft og rúið þjóðina lífsgæðum, sem aldrei verða endurheimt, þótt stóriðjuverin standi eftir án nokkurra verkefna eins og draugar í eyðimörkinni.

Landsvirkjun flutti inn annað vandamál frá Rússlandi. Hún samdi um verktöku við rússneskt mafíufyrirtæki, sem er illa þokkað víða um heim og hefur hér orðið til mikilla vandræða. Viðskipti þessi eru til marks um dómgreindarskort ráðamanna Landsvirkjunar.

Hingað til hafa stjórnendur Landsvirkjunar fengið að vaða með línur sínar og lón kruss og þvers yfir landið eins og þeir ættu það einir. Nú eru Íslendingar sem betur fer byrjaðir að átta sig á, að það eru fleiri hagsmunir, sem koma að ósnortnu víðerni landsins.

Rök ráða því, að nú verði Landsvirkjun settur stóllinn fyrir dyrnar og við förum að gæta annarra hagsmuna í ferðaþjónustu og lífsgæðum okkar sjálfra.

Jónas Kristjánsson

DV