Kvikmynd BBC um hætturnar af laxeldi hefur sýnt, að kæruleysi stjórnvalda í löndum Norður-Atlantshafs á sér enga stoð í niðurstöðum rannsókna, sem sýna hver á fætur annarri, að eldislaxinn framleiðir margvísleg vandamál, sem menn vita ekki, hvernig megi að ráða við.
Eldiskvíar í sjó eru gróðrarstía sjúkdóma og sníkjudýra, sem þar er haldið niðri með lyfjagjöfum, en breiðast út í náttúrulega fiskistofna, sem eiga leið um firðina. Þar á meðal er villtur lax, sem ekki hefur aðgang að sömu varnarlyfjum og eldislaxinn í kvíunum.
Þetta hefur leitt til hruns náttúrulegra laxastofna í Noregi og Skotlandi. Sumar ár hafa hreinlega tæmzt af laxi og í öðrum finnst aðeins reytingur af sloppnum eldislaxi, en lítið af náttúrulaxi. Hagsmunir fiskiræktar stangast þannig á við hagsmuni hefðbundinna laxabænda.
Til viðbótar við uppsöfnuð áhrif af lyfjagjöf hefur komið í ljós, að þrávirk eiturefni hlaðast margfalt meira upp í eldislaxi en náttúrulegum laxi. Vísindamenn eru því byrjaðir að vara við of mikilli neyzlu á eldislaxi, það er að segja meiri neyzlu en sem nemur einni máltíð á viku.
Þetta skaðar ímynd eldislaxins, sem auglýstur hefur verið sem einstök hollustufæða, rík af Omega-3 fitusýrum, sem fólk ætti helzt að borða oft í viku hverri. Nú verður ekki lengur hægt að auglýsa eldislax á svona róttækan hátt, því að hann er fullur af þrávirkni og lyfjum.
Í þriðja lagi hefur lengi verið vitað um, að eldiskvíar í sjó leiða til mikilla breytinga í umhverfinu. Þær hafa til dæmis valdið stjórnlausum vexti þörungagróðurs, sem stíflar loftblöndun sjávar og veldur miklum fiskidauða. Þetta hefur reynzt vera þrálátt vandamál í Noregi.
Í fjórða lagi hefur komið í ljós, að víða er eldislax orðinn vanskapaður af þrautpíndum tilraunum til að auka vöxt hans og vaxtarhraða í harðri lífsbaráttu milli eldisstöðva. Menn eru rétt að byrja að rannsaka, hvaða áhrif þetta getur haft á fólk, sem neytir framleiðslunnar.
Svo getur farið, að sams konar áfall verði á markaði fyrir eldislax og orðið hefur á markaði fyrir nautakjöt. Fólk áttar sig allt í einu á, að stjórnvöld hafa lengi gert lítið úr mikilli hættu og haldið leyndum niðurstöðum rannsókna. Þá grípur um sig snögg skelfing neytenda.
Hér á landi ríkir villta vestrið á þessu sviði í skjóli handónýtra stofnana á borð við umhverfisráðuneytið og Skipulagsstofnun ríkisins, sem í þessum málum sem flestum öðrum umhverfismálum gefa linnulaust út ábyrgðarlausa úrskurði um, að ekki þurfi umhverfismat.
Til dæmis hefur kærulaus skipulagsstjóri ríkisins ákveðið, að fyrirhugað sjókvíaeldi á norskum laxi í Berufirði skuli ekki sæta umhverfismati. Þetta hefur verið kært til umhverfisráðherra, sem áður hafði hafnað kæru vegna sömu niðurstöðu um eldi í Mjóafirði.
Núverandi umhverfisráðherra og núverandi skipulagsstjóri hafa á ýmsum sviðum reynzt vera róttækir fylgjendur sóðaskapar í umhverfismálum. Þau hafa þegar skaðað framtíðarhagsmuni vistkerfis lands og sjávar og munu áfram skaða þá, svo lengi sem þau verða við völd.
Svo getur farið, að sjókvíaeldi verði hagkvæm atvinnugrein hér á landi. Hún verður það hins vegar aldrei, ef svo illa er staðið að málum, að stjórnvöld afneita staðreyndum á borð við niðurstöður vísindalegra rannsókna á síðasta áratugi og sæta síðan óviðráðanlegum afleiðingum.
Sérstaklega eru ámælisverðir úrskurðir róttæks skipulagsstjóra, sem fullyrðir út og suður um vísindaleg efni, sem hann hefur greinilega ekki kynnt sér hið minnsta.
Jónas Kristjánsson
DV