Frystiiðnaður okkar hefur lent í miklum vanda. Eftir að hafa í nokkra áratugi verið einn af helztu hornsteinum þjóðfélagsins er hann nú skyndilega orðinn lítt eða ekki hæfur til samkeppni um hráefni og vinnuafl. Hann er að hrata í stöðu hins hefðbundna landbúnaðar.
Nú er ekki lengur gott fyrir útgerð að vera í tengslum við frystihús. Þau skip standa sig fjárhagslega bezt, sem geta annaðhvort fryst sjálf um borð eða selt fiskinn erlendum keppinautum frystihúsanna. Þetta hefur komið skýrt fram einmitt núna í ár.
Dæmi eru um, að framleiðsluverðmæti á hvern skipverja á frystitogara komist upp í sjö milljónir króna á ári. Hins vegar er framleiðsluverðmæti á hvern skipverja á hefðbundnum togara og hvern starfsmann í frystihúsi samanlagt ekki nema um hálf þriðja milljón.
Hinir togararnir, sem ekki hafa aðstöðu til að frysta um borð, geta í mörgum tilvikum annaðhvort siglt með aflann eða selt hann um borð í gáma. Gámarnir eru síðan fluttir með kaupskipum og jafnvel flugvélum til útlanda, þar sem innihaldið er verðlagt á frjálsum markaði.
Á þennan hátt hafa skipin losnað við að selja aflann á um og innan við 20 krónur kílóið til íslenzkra frystihúsa. Þau hafa að meðaltali fengið 47 krónur fyrir hann í útlöndum. Og menn hafa horft á bezta fiskinn seljast á 80 krónur, sem er fjórfalt innlenda verðið.
Vandræði frystingarinnar eru þar með ekki fullrakin. Ofan á fallbaráttuna um hráefnið bætist fallbaráttan um vinnuaflið. Frystihúsin eru að verða óvinsælir vinnustaðir, sem borga lágt kaup og bjóða slæma vinnuaðstöðu, en krefjast mikilla afkasta við færiböndin.
Í sumar greiddu íslenzk frystihús 126 króna tímakaup, en dönsk greiddu 260 krónur eða tvöfalt meira. Ljóst er, að þetta kaup stuðlar lítt að góðum lífskjörum í landinu, enda gengur það eingöngu vegna þess, að víða um land er fiskvinnsla eini atvinnukostur fólks.
Við þessar hörmulegu aðstæður er eðlilegt, að spurt sé, hvort frystingin sé orðin úrelt atvinnugrein eða hvort finna megi einhverjar skýringar, sem geti leitt til gagnaðgerða og lækninga. Þetta er mjög brýnt, til dæmis vegna atvinnuástandsins í mörgum sjávarplássum.
Tómt mál er að tala um hömlur við gámafiski og annarri siglingu með afla. Svokölluð vinnsla í landi er hreint og klárt rugl, ef hún eykur ekki verðmæti hráefnisins. Og staðreyndin er einfaldlega sú, að góður ferskfiskur er miklu verðmætari vara en freðfiskur.
Nokkrar vonir eru bundnar við endurfrystingu á afla, sem þegar hefur verið frystur um borð í togara. Slíkan afla er hægt að taka úr frystigeymslum eftir hendinni og nýta í tiltölulega dýra framleiðslu, ef rétt reynist, að fiskurinn tapi ekki umtalsverðum gæðum.
Frystiiðnaðurinn hefur hingað til einblínt á færibandaframleiðslu á tiltölulega ódýrum fiski handa bandarískum skólum, sjúkrahúsum og fangelsum. Menn verða hissa, þegar japanskir kaupendur biðja um fisk með haus og sporði og vilja sjá tálkn og augu eins og íslenzkir neytendur.
Ef frystiiðnaðurinn getur fært sig nær sérhæfðri framleiðslu handa kröfuhörðum og dýrum markaði, er hugsanlegt, að hann nái sér upp og geti á ný hafið samkeppni um hráefni og vinnuafl. Þetta verður að reyna, því að þjóðin telur sig ekki hafa efni á öðrum ómaga við hlið hins hefðbundna landbúnaðar.
Jónas Kristjánsson.
DV