Kaupmáttur landverkafólks hefur minnkað á tveimur árum um 16% eftir að hafa verið á undanhaldi um nokkurra ára skeið. Á sama tíma er forseti Alþýðusambandsins að ræða um, hvort aukinn flýtir í afnámi virðisaukaskatts af bókum geti bjargað rauðum strikum.
Virðisaukaskattur af bókum verður vafalaust felldur niður fyrr en ákveðið var á öndverðum síðasta vetri. Það stafar af, að dagsetning brottfallsins var heimskuleg og að mistökin hafa verið kunn öllum hlutaðeigandi frá upphafi. Þau yrðu leiðrétt, þótt engin væru rauð strik.
Lífskjör Íslendinga hafa farið ört versnandi að undanförnu. Fyrir nokkrum árum vorum við í hópi fremstu þjóða heims í lífsgæðum, en höfum ört verið að falla niður stigann. Enn verra er, að stéttaskipting hefur aukizt, því að hálaunafólk hefur betur haldið á sínu.
Stéttarfélög almennings í landinu eru meira eða minna undirlögð af pólitískum framagosum, sem hafa meiri áhyggjur af stöðu sinni í flokknum og stjórnmálunum en af lífskjörum í landinu. Þess vegna felast kjarasamningar í ýmsu rugli á borð við rauð strik.
Samtök neytenda eru líka að töluverðu leyti undir lögð af pólitískum gosum, sem hafa svipuð áhugamál og verkalýðsrekendur. Þess vegna felast baráttumál neytenda í minni háttar uppákomum út af einokun á takmörkuðum sviðum á borð við kartöflur og grænmeti.
Lífskjör láglaunafólks og almennra neytenda á Íslandi fara lítið sem ekkert eftir rauðum strikum og vondum kartöflum. Lífskjörum þjóðarinnar hrakar vegna mjög mikilla millifærslna í hagkerfinu og brennslu efnislegra verðmæta hjá gæludýrum kerfisins.
Á sama tíma og ótal hagfræðingar hafa sýnt fram á, að árlegur herkostnaður þjóðarinnar af hefðbundnum landbúnaði er á bilinu frá 15 til 20 milljarðar, sennilega rúmlega 17 milljarðar, er formaður Neytendasamtakanna að verja innflutningsbann á búvöru.
Af 17 milljarða herkostnaði stafa rúmlega 10 milljarðar eingöngu af innflutningsbanninu, sem formaður Neytendasamtakanna er að verja. Það er því ekki von á góðum lífskjörum neytenda, þegar oddamenn þeirra styðja meginruglið og puðast síðan í smáatriðum.
Engin þjóð getur haldið við góðum lífskjörum með því að brenna á hverju ári upphæð sem svarar 275 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þetta er mál, sem formenn og forsetar samtaka launþega og neytenda mættu gjarna snúa sér að.
Stjórnmálaflokkarnir brenna meiri verðmætum en í hefðbundnum landbúnaði einum. Þeir hafa byggt upp sjóðakerfi, sem millifærir milljarða á hverju ári til sérstakra gæludýra á borð við minka og lax. Í flestum tilvikum brennur þetta aflafé þjóðarinnar upp til agna.
Stjórnmálaflokkarnir brenna líka verðmætum í öðrum afskiptum ríkisins af atvinnulífinu. Þeir hafa reyrt það í kvóta, búmark, fullvirðisrétt og aflamark. Þeir hafa meira að segja stofnað aflamiðlun til að draga úr möguleikum á að selja dýran ferskfisk í útlöndum.
Ísland er óðum að verða sér á báti með hagkerfi, sem einkennist af mikilli ofanstýringu af hálfu stjórnmálamanna í ráðherrastóli. Ofanstýringin felst að verulegu leyti í að færa fé frá starfsemi, sem getur gefið af sér, til gagnslítillar iðju eða beinlínis skaðlegrar.
Forseti Alþýðusambandsins segir ekki orð gegn neinu af þessu. Hann er enn að leika sér að rauðum strikum í sandkassa, sem er fjarri íslenzkum raunveruleika.
Jónas Kristjánsson
DV