Rauðamelsheiði

Frá Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal til Blönduhlíðar í Hörðudal.

Um Rauðamelsheiði og dalina vestan hennar voru alfaraleiðir á Skógarströnd og þaðan um Vestliðaeyri í Dalina. Örnefnið Götuvatn minnir á þetta. Rauðamelsheiðarvegur var fyrrum talinn liggja frá innstu bæjum á Skógarströnd og suður að Ölviskrossi. Með lest tók það fjórar stundir að fara þessa leið.

Árið 1234 reið Órækja Snorrason með liði suður Rauðamelsheiði til ránsferðar um sunnanvert Snæfellsness. Sturla Þórðarson reið suður heiðina 1253 til fundar við Þorgils skarða Böðvarsson í Eldshólma sunnan við Haffjarðará. 1255 riðu Sturla og Þorgils suður heiðina eftir að hafa áður mælt sér mót í Haukadalsskarði.

Förum frá Hallkelsstaðahlíð vestur með vatninu norðanverðu út fyrir Hlíðarmúla. Síðan með þjóðvegi 55 norður með Oddastaðavatni austanverðu um eyðibýlið Ölviskross og áfram norður frá vatninu að Svínavatni. Við norðausturenda vatnsins förum við frá þjóðveginum meðfram Syðsta-Þverfelli norðvestur um Löngutjörn að Götuvatni og förum norðan þess og sunnan Innsta-Þverfells að Almannaborg. Við förum sunnan hennar og eftir Tófudalsgii niður í Tófudal. Þaðan förum við til vesturs fyrir sunnan Seljafell og Efra-Berg. Og loks milli Hólmlátursvatna niður á þjóðveg 54 um Skógarströnd. Þaðan liggja vegir austur og vestur um ströndina. Við förum austur með þjóðveginum í Hörðudal að Blönduhlíð.

36,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Heydalur, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sópandaskarð.
Nálægar leiðir: Fossavegur, Hattagil, Miðá, Klifháls.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag