Rauðará

Veitingar

Í Rauðará er eldsteikt. Ef þú vilt ekki nautasteik, geturðu fengið lambasteik, laxasteik eða steinbítssteik. Ef þú vilt þetta ekki piparteikt með piparsósu, geturðu fengið það sinnepssteikt með sinnepssósu. Með öllum réttum fylgir bökuð kartafla og þrautsteikt grænmeti. Þú getur valið fimm steikingartíma og tvær stærðir skammta, báðar stórar. Þetta er steikhús.

Ekki er allt staðlað. Grimmdarleg risamálverk Baltasars af þjáningum í helvíti geta valdið lystarstoli. Nautasteikin getur verið góð, en hún getur líka verið óæt. Yfirþjónninn er svo önnum kafinn við að vera kammó, að hann tekur ekki alvarlega ábendingar um, að nautakjöt sé skemmt. Og efnisrýrar pappírssérvéttur skera í augu á stað, þar sem ætlazt er til, að gestir borgi rúmlega 4.000 krónur fyrir þríréttað með kaffi.

Rauðará er afar hannaður og ýktur veitingastaður í gömlu brugghúsi við Rauðarárstíg. Úr veitingasal upp í koníaksstofu rís hringstigi, smíðaður innan í gömlum bruggkatli. Ráðizt hefur verið með loftpressu á múrsteinsveggi ketilsins og þannig búnar til syllur fyrir skraut. Hringstiginn er stolt hússins, skreyttur jólaseríu.

Bogahvelfingar, gluggaleysi, smíðajárn og kerti framkalla rómantík, þegar dósatónlistin er ekki stillt upp úr öllu valdi og gestir horfa ekki á málverkin. Leiðsögumenn senda hingað erlenda ferðamenn, sem vilja komast í steikhús. Þeir fá í kaupbæti yfirþjón, sem gengur milli borða og gernýtir brandarana sína.

Hér vantar ekkert nema þjónustulið skipað þrýstnum stúlkum og stæltum strákum í þjóðbúningum til að syngja tvíræðar þjóðvísur við undirleik fiðlusargara milli rétta. Þá gætum við verið hvar sem er á Bretlandseyjum og túristarnir yrðu jafnvel enn hamingjusamari.

Hér er líka hægt að fá gott að borða. Súpur reyndust ágætar; fínleg sveppasúpa og bragðsterk sjávarréttasúpa með laxi, lúðu og rækju, báðar hveitilausar, vel rjómaðar og bornar fram með hvítlauksbrauði. Mexikanskur salatréttur var líka góður, með fersku, fallegu og fjölbreyttu hrásalati í stökkri brauðskál, borinn fram með ferns konar sósum.

Humar í skelinni var ofeldaður og ofkryddaður, fallega fram borinn. Laxinn var líka ofeldaður og þurr. Sjávarréttir eru ekki aðalsmerki hússins, enda kannski ekki ætlast til slíks í steikhúsi.

Bezt tókst eldhúsinu upp í hvers konar kjöti öðru en nautasteik, svo sem fyrsta flokks kálfalundum, meyrum og fínum; rosalega meyrum og góðum kjúklingum í hunangshjúp og fínum lambalundum, skemmtilega hressilega krydduðum. Þessir toppar eru með því bezta hér á landi og benda til, að kokkinum geti hentað betur að stunda alvöru-matreiðslu en að eldsteikja ofan í ferðamenn.

Í eftirrétt var að íslenzkum hætti boðið upp á ís eða tiramisu-ostaköku, svo og súkkulaðikrem, sem kallað var belgísk súkkulaðikaka. Kaffi var hlutlaust.

Jónas Kristjánsson

DV