Rauði sófinn

Veitingar

Ég gæti ímyndað mér, að veitingahús héti Blári stóllinn eða Hvíta kannan. En Rauði sófinn hlýtur að minna á eitthvað annað en mat, bæði hvað varðar lit og húsgagn, enda hélt ég, að þetta væri eitthvað allt annað en veitingahús.

Ekki þarf að
óttast nafnið

Ég þorði raunar ekki að fara þar inn, fyrr en búið var að útskýra málið fyrir mér. Staðurinn heitir bara Rauði sófinn, af því að rauður sófi er rétt innan við útidyrnar. Og tæpast er hætta á, að menn fái óorð á sig af krítarkortanótunum, því að þar stendur, að staðurinn heiti Hlemmur.

Ég er viss um, að staðurinn hefur misst af viðskiptavinum út af nafninu. En kannski fengið aðra í staðinn. Það merkilega er svo, að staðurinn með þessu nafni er bæði fremur notalegur og með fremur góðan mat.

Maður á aldrei að taka mark á ytri ummerkjum. Ímynd og innihald er tvennt ólíkt og jafnvel óskylt. Þetta á frekar við í nútímanum en nokkru sinni fyrr.

Guðsorð
á veggjum

Rauði sófinn er betur innréttaður en veitingastofurnar, sem hafa komið hver á fætur annarri hér á horninu við Hlemmtorg. Hann minnir dálítið á danska hádegisverðarstofu. Einkenni hans eru málmstungur úr dönskum tímaritum og guðsorðabókum, sem þekja veggina.

Eins og í útlöndum eru svo eru líka gróðurkassar utan við litlar gluggarúður og græna gluggapósta. En fremur á nú gróðurinn bágt í rokinu, sem venjulega á Hlemmi. Ég býst við, að strætó hafi notað vindmælingu til að velja þetta torg sem miðstöð ferða sinna um bæinn.

Staðurinn tekur um 40 manns í sæti. Grófur panill hefur verið lagður upp á miðja veggi, en þar fyrir ofan er málað bleikt. Gamlir stólarnir eru úr ýmsum áttum, en flest borðin eru með þykkum harðviðarplötum. Ofan á þeim eru leðurmottur, tauþurrkur á kvöldin og pappírsþurrkur í hádeginu.

Lágur jazz niðursoðinn hjálpar svo við að búa til fremur viðkunnanlega og rólega stemningu, sem veldur því, að margir eru farnir að sækja staðinn aftur og aftur.

Ódýr í
hádegi

Rauði sófinn getur verið mjög ódýr í hádeginu, ef menn velja fiskrétt eða kjötrétt dagsins, enda er jafnan dálítið af fólki að borða þar á þeim tíma. Súpa dagsins er inum það bil 750 krónur og kjötrétturinn á um það bil 890 krónur. Með kaffi fer þetta í 870 krónur og 1010 krónur.

Ég hef fengið fremur góða tómat- og hrísgrjónasúpu með beikonbragði, nokkuð sérstæða súpu. Ennfremur góða spergilsúpu, meira hefðbundið fyrirbæri. Með súpunum var gott súrbrauð með smjöri.

Djúpsteiktur skötuselur í eggjahjúp, með kaldri tartarsósu úr sýrðum rjóma, var mjög mjúkur og bragðgóður, borinn fram með ferskri steinselju og kartöflum. Nautakjötsflögur og svínakjötsstrimlar voru líka fremur góður matur, bornar fram með sveppum, hvítum kartöflum og hrásalati, sem aðallega var ísberg og tómatar, mjög ferskt salat.

Í hádeginu var líka hægt að fá ferskt grænmeti með skinu og annas á 590 krónur, samloku með rækjum og grænmeti á 550 krónur og eggjaköku með pepperoni á 570 krónur, allt að súpunni innifalinni.

Léttsteikt
lifur

Að kvöldi verður staðurinn hins vegar fremur dýr, eins og raunar gengur og gerist í Reykjavík. Þá má reikna með útgjöldum upp á um það bil 2045 krónur fyrir tvo rétti og kaffi og um það bil 2470 krónum, ef eftirréttur er einnig pantaður.

Ég prófaði súpu dagsins, sem var sjóðheit og góð sveppasúpa, mikið rjómuð. Ég prófaði líka sem forrétt hæfilega léttsteikta kjúklingalifur með afar sætri hunangsakarrísósu, hinn bezta mat. Ennfremur sérstaklega meyran smokkfisk, borinn fram með sterkri og góðri tartarsósu úr sýrðum rjóma.

Með aðalréttunum var borið fram gott hrásalat með sýrðum rjóma. Það var gott eins og hrásalatið í hádeginu. Uppistaðan var ferskt jöklasalat.

Ég prófaði sæmilega, en of mikið grillaða tindabikkju með of miklu smjörbragði. Þetta var slakasti rétturinn, sem ég prófaði í Rauða sófanum.

Ennfremur gott heilagfiski, sem var steikt í sterkri piparsósu, ættaðri frá New Orleans.Svona sósa, kölluð “cajun” í Rauða sófanum, fer vel saman við heilagfiski. Þetta er svokölluð creóla-matreiðsla, orðin til fyrir frönsk landnemaáhrif vestan hafs.

Nautasteik
eftir þyngd

Nautasteik er seld eftir þyngd, í 100, 200 og 300 grömmum. Þetta var óvenjulega góð steik, undurmeyr og bragðgóð, borin fram með bakaðri kartöflu.

Meðal eftirréttanna var nokkuð mikið ristaður banani með salthnetum, ís og þeyttum rjóma, réttur, sem alltaf er nokkuð traustur.

Ennfremur prófaði ég ostaköku, sem ekki var með miklu ostabragði. Mun betra var eplabaka með afar þunnum bakstri og þykku lagi af maukuðum eplum, en engum heilum bitum.

Kaffi í Rauða sófanum er borið fram með kandísmolum. Vínlisti er hvorki mikill né merkilegur. Þar eru gamalkunnug andlit nothæf, svo sem Chateau du Cléray og Gewurztraminer í hvítvínum og Chateau Barthez de Luze í rauðvínum.

Helzta tromp staðarins á því sviði eru rautt og hvítt Mouton Cadet frá Rotschild barón á tiltölulega kristilegu verði, 1950 krónur hvítt og 2300 krónur rautt. Þetta er þekkt sem traust vín með nokkru verksmiðjusniði.

Jónas Kristjánsson

DV