Rauðkembingar

Frá Rangárbotnum um Skjólkvíahraun að Krakatindsleið.

Þessa leið fara þeir, sem vilja ganga stytzta leið á Heklu. Skjólkvíahraun rann 1970 og var þá þessi leið notuð til skoðunarferða. Rauðkembingur er söðulbakað illhveli og hefur gefið nafnið fjalli á þessari leið.

Byrjum í Rangárbotnum við vegamót þjóðvegar 26 og Landmannaleiðar í 240 metra hæð. Við förum Landmannaleið til austurs, fyrst norðan Sauðafells að Öldunni. Þar liggur jeppaslóð suður í átt að Heklu og við fylgjum henni alla leið. Fyrst um Skjólkvíahraun að Hestöldu og síðan suðvestur með öldunni og síðan bratt upp brekkuna í Rauðuskál, sem er milli Hestöldu og Rauðkembinga. Við förum norðaustur um skarðið og síðan suður yfir Nýjahraun vestan við Krakatind og suður að austurhlið Mundafells, þar sem við komum á slóðina frá Landmannahelli um Krakatind og Vatnafjöll til Rangárvalla.

27,0 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Rangárbotnar, Sauðleysur, Krakatindur.
Nálægar leiðir: Valafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort