Rauðum spjöldum veifað

Greinar

Sprellikarl í Héraðsdómi hefur gefið fyrrum forsetaframbjóðanda, Ástþóri Magnússyni, veiðileyfi á myndavélar. Refsilaust er, að Ástþór eyðileggi þær, svo framarlega sem hann tekur ekki leifarnar með sér. Refsivert er að stela myndavélum, en ekki refsivert að eyðileggja þær.

Héraðsdómur Reykjavíkur virðist sáttur við ofbeldi. Hér í blaðinu hafa menn velt vöngum yfir, hvað Pétur Guðgeirsson héraðsdómari mundi gera, ef Ástþór spillti listaverkum á sýningu, en tæki leifar þeirra ekki með sér. Dæmi er um slíka árás ofbeldishneigðs sendiherra Ísraels á listsýningu í Svíþjóð.

Lögreglan sendir svipuð skilaboð til samfélagsins á Akureyri og í Reykjavík. Ofbeldishneigt Fazmo-gengi var ekki yfirheyrt fyrr en löngu eftir viðtöl DV við það. Og sömu sögu var að segja um ofbeldishneigða handrukkara á Akureyri. Þeir voru yfirheyrðir löngu eftir viðtöl DV við þá.

Það var almenningur, sem rétti upp rauða spjaldið, ekki lögregla eða dómarar, sem hafa gamaldags hugmyndir um afbrot. Lögregla og dómarar telja alvarlegt, að stolið sé frá ríkum, en láta sér í léttu rúmi liggja, að ræflar í ræsinu níðist líkamlega hver á öðrum með ofbeldi og nauðgunum.

Innifalið er í sérkennilegri heimsmynd, sem vafalaust kemur í lögum frá Alþingi, að ofbeldismál eru ekki rannsökuð lengra. Þegar menn játa ofbeldið er þeim sleppt. Þegar menn játa ofbeldi aftur er þeim aftur sleppt. Þegar menn játa ofbeldi í n-ta skipti er þeim sleppt í n-ta skipti.

Enginn áhugi virðist vera á sjálfum fíkniefnaheiminum. Hverjir eru til dæmis mennirnir fimmtán, sem selja fíkniefni á Akureyri? Hver er forstjóri þeirra, heildsali fíkniefna á Akureyri? Lögreglan á Akureyri reynir ekki að hafa hendur í hári smásala og heildsala. Hún spyr handrukkara ekki um þá.

Áhugaleysi lögreglu og dómstóla á fæðukeðju fíkniefnaheimsins sker í augu. Burðardýr eru tekin í tolli og handrukkarar eru teknir, ef myndir af þeim og viðtöl hafa birzt í DV. Sáralítill árangur hefur náðst í að hafa hendur í hárri þeirra, sem hærra eru settir í fíkniefnaheiminum.

Svipaða sögu er að segja um fjölmiðlana. Flestir fjölmiðlar eru önnum kafnir við aðra sálma. DV eitt leitar uppi handrukkara, talar við þá og birtir myndir af þeim. Þar með er afskiptum DV að mestu lokið. Eftir situr valdapíramídi fíkniefnaheimsins, sem meira að segja DV lætur í friði.

Ekki er nóg, að fólk veifi rauðum spjöldum á handrukkara. Veifa þarf rauðum spjöldum á lögreglu, dómara, þingmenn, fjölmiðlunga. Jafnvel á DV.

DV