Raunvextir eða frjálsir.

Greinar

Í fyrsta skipti um langan aldur eru vextir almennt orðnir jákvæðir og fjárskuldbindingar verðtryggðar. Þetta stafar af, að tekizt hefur á ótrúlega skömmum tíma að ná verðbólguhraðanum úr rúmlega 100% niður fyrir 20%.

Vextir af óverðtryggðum lánum hafa um leið verið lækkaðir á skipulegan hátt. En sú breyting hefur orðið tiltölulega hægari. Og nú er svo komið, að útsölulán til forréttindagreina eru að mestu úr sögunni að sinni.

Ekki er tryggt, að þetta ástand sé varanlegt. Ef verðbólga vex aftur, er líklegt, að upp hefjist að nýju raddir um, að atvinnulífið þoli ekki fjármagnskostnað, sem er í takt við verðbólguna, og að vexti beri að niðurgreiða á nýjan leik.

Hugmyndin um, að vextir eigi að vera jákvæðir og fjárskuldbindingar verðtryggðar, byggist ekki nema að litlu leyti á tillitssemi við sparifjáreigendur. Þeir eru út af fyrir sig ekki of góðir til að bera byrðar á við aðra.

Það, sem máli skiptir, er, að jafnvægi sé í framboði og eftirspurn lánsfjár. Til þess að svo verði, þarf að fá fólk til að leggja peninga fyrir í stað þess að nota þá til eigin þarfa. Og slíkt hefur fólk ekki gert á undanförnum árum.

Ekki er til nein töfratala raunvaxta, sem markar þetta jafnvægi. Fjárfestingarlánasjóðirnir bjóða um þessar mundir 4,2% raunvexti af fé, sem þeir fá að láni. Samt er enn sár skortur á fjárstreymi til allra þessara sjóða.

Einn bankastjórinn sagði nýlega, að 4,2% raunvextir væru of lágir. Þeir megnuðu ekki að breyta eyðslu í sparnað. Enda vitum við, að víða í útlöndum eru raunvextir tvöfalt hærri eða á bilinu frá 8% til 10%.

En raunvextir geta líka orðið of háir. Í öðrum löndum hafa þeir í sumum tilvikum dregið úr getu fyrirtækja til að færa út kvíarnar fyrir lánsfé og búa þannig til atvinnu. Þar hefur afleiðingin verið þrálátt atvinnuleysi.

Hins vegar er ljóst, að hér á landi er enn langt í, að eftirspurn eftir lánsfé komist niður í jafnvægi við framboð á lánsfé. Þess vegna er ekki fráleitt hjá bankastjóranum, að raunvextir þurfi enn að hækka nokkuð.

Samt er hugsanlegt, að hækkaðir raunvextir geti dregið svipaðan dilk á eftir sér og gerzt hefur í útlöndum. Mikill fjöldi húsbyggjenda mun til dæmis ekki geta greitt meira en núverandi 2,5% raunvexti af húsnæðislánum.

Í rauninni má segja, að 2,5% raunvextir af húsnæðislánum, 0,5% raunvextir af lánum til verkamannabústaða og hliðstæð vildarkjör á ýmsum lánum til atvinnuvega feli í sér bara eina niðurgreiðsluna af mörgum.

Ef til vill stafar tregða sparifjáreigenda gagnvart 4,2% gylliboðum af rótgróinni og eðlilegri ótrú á, að stefna raunvaxta og verðtryggingar sé varanleg. Ef til vill kemur smám saman í ljós, að þessi 4,2% verði nógu freistandi.

Hitt er svo merkilegt, að menn skuli þurfa að vera að velta vöngum yfir, hverjir vextir og verðtrygging eigi að vera. Miklu nær væri að spyrja markaðinn álits. Það er að segja, að hafa vextina hreinlega frjálsa.

Á þann hátt eru mestar líkur á, að sparifjáreigendur leggi fram það fjármagn, sem lántakendur telja sig þurfa til að framkvæma og reka arðbær fyrirtæki í nægilega miklum mæli til að full atvinna sé í landinu.

Jónas Kristjánsson.

DV