Rautt spjald Framsóknar

Greinar

Framsóknarþingmennirnir Guðni Ágústsson og Hjálmar Árnason létu mikið á sér bera við að veifa rauðu spjaldi á útifundi í Reykjavík gegn ofbeldi, sem mest hefur tengst fíkniefnum. Þeir eru einmitt fulltrúar stjórnmálaflokks, sem setti afnám fíkniefna á oddinn í næstsíðustu kosningabaráttu.

Framsókn hefur ekkert gert í málinu í hálft annað tímabil, sem síðan er liðið. Samt hefur flokkurinn verið aðili að ríkisstjórn allan þennan tíma með Guðna sem ráðherra og Hjálmar sem formann þingflokksins. Þeir félagar lömdu sig með rauðu spjaldi eins og munkar, sem lemja sig með svipu.

Undir forustu Framsóknarflokksins sem óvinar fíkniefna á Íslandi hefðu Alþingi og ríkisstjórn getað gert svo margt á undanförnum sex árum. Ef framsóknarmenn og aðrir þingmenn hefðu í rauninni haft nokkurn áhuga á málinu. En þetta var bara marklaust kosningamál, fljóttekið fylgi frá bjánum.

Tökum nokkur dæmi. Alþingi hefði getað endurskoðað lög um meðferð fíkniefnamála í löggæzlu og dómkerfi. Það hefði getað aukið refsingu og ákveðið langvinnt gæzluvarðhald þeirra, sem ekki segja, hver var næstur ofan við þá í fæðukeðju fíkniefni, það er, hver seldi þeim dópið.

Lögreglumenn kvarta um, að þeir hafi ekki mannafla og heimildir til að fást við fíkniefnaheiminn. Þeir lesa bara DV og fá þar nöfn og myndir af handrukkurum. Þeir taka síðan handrukkarana til yfirheyrslu nokkrum dögum síðar, en sleppa þeim án þess að fá að vita, fyrir hverja þeir handrukka.

Dómarar hafa lítinn áhuga á fíkniefnaheiminum, þar sem ræflar í ræsinu berja aðra ræfla í ræsinu til óbóta. Þeir vakna til lífsins, ef peningum er stolið, af því að lagaramminn gerir ráð fyrir að þjófnaður frá hinum ríku sé merkara afbrot en ofbeldi á jaðri fíkniefnaheimsins.

Allir horfa auðvitað á Alþingi, sem ákveður ramma, setur lög og veitir peningum út og suður. Alþingi ber ábyrgð á vinnubrögðum lögreglu og dómsvalds og skorti á vinnubrögðum þeirra. Við förum eftir lögunum, við förum eftir rammanum, við höfum ekki peninga. Allir syngja þennan sama söng.

Það eru auðvitað Guðni og Hjálmar, sem mesta ábyrgð bera. Þeir lofuðu mestu og sviku því mest. Það er því vel við hæfi, að þeir mæti á torgum og lemji sig með rauðu spjaldi.

DV