Reagan er óbærilegur.

Greinar

Háttsettur liðhlaupi úr öryggissveitum El Salvador hefur að undanförnu borið vitni fyrir bandarískri þingnefnd um morðæði dauðasveita öfgasinnaðra hægri manns í landi sínu. Vitnisburður hans staðfestir fyrri heimildir.

Dauðasveitirnar eru undir stjórn Roberto d’Aubuisson, forseta þings El Salvador og frambjóðanda til forsetaembættis landsins. D’Aubuisson er geðbilaður og fær útrás í morðæði að sögn fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í El Salvador.

Með geðbiluninni er d’Aubuisson jafnframt mikill ræðumaður í stíl Hitlers og Mussolini. Hann hrífur með sér þá, sem eru veikir fyrir fasisma, og er talinn viss um eitt þriggja efstu sætanna í forsetakosningunum.

Ekki er nákvæmlega vitað, hversu marga d’Aubuisson hefur látið myrða, en talan 30.000 hefur verið nefnd. Nokkuð ljóst er þó, að árið 1983 voru fórnardýrin rúmlega 6.000 og spanna allt litróf stjórnmálanna nema tryllta hægri kantinn.

Frægasta morðið, sem d’Aubuisson fyrirskipaði, var á erkibiskupnum Oscar Arnulfo Romero, sem myrtur var fyrir altari dómkirkjunnar. En einkum eru myrtir kennarar og læknar og aðrir þeir, sem grunaðir eru um aðstoð við alþýðuna.

Að baki d’Aubuisson stendur landeigendavaldið, bæði það, sem heima situr, og hitt, sem hefur flutzt til Miami í Bandaríkjunum. Frá Miami eru morðin fjármögnuð fyrir milligöngu Nicolas Carranza höfuðsmanns, yfirmanns tollalögreglunnar í landinu.

Annar helzti stuðningsmaður morðsveitanna er fyrrverandi varnarmálaráðherra landsins, José Guillermo Garcia. Sá, sem sér um að koma morðingjunum undan réttvísinni er núverandi varnarmálaráðherra, Eugenio Vides Casanova.

Náfrændi Vides er höfuðsmaðurinn Oscar Edgardo Casanova, sem lét nauðga og myrða bandarískar nunnur, sem önnuðust hjálparstarf í El Salvador. Yfirmenn í hernum sjá d’Aubuisson yfirleitt fyrir óargadýrunum.

Þótt d’Aubuisson hafi gengið svo langt, að hann eigi ekki lengur upp á pallborðið hjá Reagan Bandaríkjaforseta, eru hinir fjöldamorðingjarnir nokkurn veginn allir skjólstæðingar Mið-Ameríkustefnu Bandaríkjastjórnar.

D’Aubuisson bætir sér upp þennan skort á stuðningi með hjálp frá tryllta hægri kantinum í stjórnmálum og trúmálum Bandaríkjanna, svo sem American Security Council og National Strategic lnformation Center.

Harmsaga tuttugustu aldarinnar í Mið-Ameríku er nánast öll á vegum bandaríska stjórnvalda, sem studdu til valda hrikalega glæpamenn á borð við Batista á Kúbu og Somoza í Nicaragua. Enda eru Bandaríkin hötuð af öllu ærlegu fólki í Mið-Ameríku.

Þannig undirbjuggu bandarísk stjórnvöld óafvitandi valdatöku Castro á Kúbu og Sandinista þeirra í Nicaragua, sem nú sigla landi sínu óðfluga í faðm kommúnismans. Bandaríkjamenn geta engum öðrum en sjálfum sér um kennt.

Ástandið var byrjað að batna og mest á kjörtímabili Carters Bandaríkjaforseta. Það hefur hins vegar versnað aftur hjá Reagan, sem talinn hefur verið nokkurn veginn viss um endurkjör. Sú tilhugsun er nánast óbærileg þeim, sem vilja hafa innihald í vestrænu samstarfi.

Jónas Kristjánsson.

DV