Reagan er vandamál.

Greinar

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti tekur lífinu með ró, byrjar daginn seint og endar hann snemma. Slíkt gekk vel hjá Eisenhower forseta, sem kunni að velja sér ráðgjafa og ráðherra, en gengur miður hjá manni, sem kann það ekki.

Reagan vill helzt ekki hlusta á aðra en þá, sem deila með honum lífsskoðun í megindráttum. Tilgangslaust er að leggja fyrir hann álitsgerðir, sem stangast að einhverju leyti á við hans eigin dóma og fordóma.

Jafnvel hægri sinnaðir embættismenn í utanríkisþjónustunni hafa orðið að víkja, ef þeir hafa bent á aðrar leiðir en þær, sem falla í kramið hjá innsta hringnum í Hvíta húsinu, þar sem mikil áherzla er lögð á hóphyggju.

Þannig urðu að víkja Thomas O. Enders, aðstoðarráðherra Ameríkumála, og Deane R. Hinton, sendiherra í El Salvador. William P. Clark, öryggismálafulltrúi forsetans, grunaði þá um að hneigjast að sáttastefnu í El Salvador.

Clark er gott dæmi um embættismennina, sem Reagan safnar kringum sig. Ásamt hinni herskáu Jeane J. Kirkpatrick, sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, ræður hann mestu um utanríkisstefnu, sem spillir sambúð vestrænna ríkja.

Sjálfur hefur forsetinn lítinn áhuga á utanríkismálum og lætur sér nægja að vera á móti kommúnisma. Hin einfalda heimsmynd Reagans, Clarks og Kirkpatrick ræður ferðinni, en ekki hinn flókni raunveruleiki mannanna í utanríkisráðuneytinu.

Með naumindum tókst á sínum tíma að koma í veg fyrir, að forsetinn veldi þekktan andstæðing mannréttinda, Ernest Lefever, í embætti aðstoðarráðherra mannréttindamála. En frú Kirkpatrick heldur uppi merki hans.

Frægur að endemum er innanríkisráðherrann, James G. Watt, sem vinnur ósleitilega að sölu námuréttinda í bandarískum þjóðgörðum og er frægur fyrir óbeizlaðar fjölmiðlayfirlýsingar, sem harðri gagnrýni hafa sætt.

Svipuð stefna var rekin af Anne Gorsuch, sem forsetinn réð til að stjórna umhverfisverndarstofnuninni. En hún gekk svo langt í að auka mengun, að forsetinn neyddist til að láta hana fara og kvaddi hana með tárum.

Sjálfur er Reagan ekki maður hugleiðinga. Hann hefur fáar og tiltölulega einfaldar skoðanir á lífinu og tilverunni og getur, að sögn bandarískra blaðamanna, ekki einbeitt sér að neinu máli lengur en í sjö mínútur í senn.

Hann les alls ekki langar álitsgerðir. Ekki þýðir að senda honum lengri plögg en upp á eina vélritaða síðu. Og þegar hann les þau, er það ekki til að kynna sér málið, heldur til að finna úr þeim auglýsingapunkta.

Anthony Lewis, dálkahöfundur New York Times, segir, að forsetinn telji ekki vera hlutverk sitt að taka ákvarðanir, heldur sé hann að leita að orðasamböndum, sem hann geti endurtekið, þegar hann þarf að “selja” kjósendum stefnuna.

Sem forseti er hann þannig ekki framkvæmdastjóri ríkisins, heldur sölumaður þess. Hann trúir blint á dóma sína og fordóma og kemur fyrir í sjónvarpi af traustvekjandi einlægni, alveg eins og bílasalinn í auglýsingunum.

Alvarlegasta vandamálið er, að vaxandi líkur eru á, að Ronald Reagan verði aftur í kjöri til forseta á næsta ári og hljóti þá endurkosningu. Þar með verður framlengdur í fjögur ár sá mikli vandi, sem hér hefur verið lýst.

Jónas Kristjánsson.

DV