Aðeins 18% þjóðarinnar eru andvíg hvalveiðum okkar samkvæmt skoðanakönnun DV í síðasta mánuði. Fyrir tæpum þremur árum sýndi skoðanakönnun blaðsins, að 41% þjóðarinnar voru þá á svipaðri skoðun. Þannig hafa marktæk sinnaskipti orðið með þjóðinni í afstöðunni til hvalveiða.
Á þessum tíma hefur tvennt gerst. Sjávarútvegsráðherra okkar uppgötvaði smugu hinna svokölluðu vísindalegu hvalveiða. Og grænfriðungar hófu aðgerðir gegn þessum veiðum. Ef þeir halda slíku áfram á næsta ári, mun andstæðingum hvalveiða halda áfram að fækka hér á landi.
Þannig er þjóðremban hér og þannig er hún í öðrum löndum. Suður-Afríka er gott dæmi um þetta. Efnahagslegar refsiaðgerðir útlendinga hafa ekki sannfært hinn hvíta minnihluta um fánýti aðskilnaðarstefnunnar. Þvert á móti hafa þær stappað stálinu í aðskilnaðarsinna.
Í framhjáhlaupi má benda á hræsni þjóðkirkju okkar, sem mælti á kirkjuþingi með refsiaðgerðum gegn Suður-Afríku vegna aðskilnaðarstefnunnar, en nefndi engar refsiaðgerðir gegn Sovétríkjunum vegna framferðis þeirra í Afganistan. Þjóðkirkjan gerir sér þannig mannamun.
En í Suður-Afríku tapaði stjórnarflokkurinn í aukakosningum fylgi og þingsæti til öfgaflokks, sem berst harðlega gegn hvers konar eftirgjöfum við svarta meirihlutann. Þetta var fyrsta afleiðing hinna efnahagslegu refsiaðgerða gegn Suður-Afríku.
Síðan hefur stjórnarflokkurinn í Suður-Afríku færzt í átt til aukinna öfga til að vernda stöðu sína meðal hinna hvítu kjósenda. Á laugardaginn bannaði stjórnin fréttaflutning frá óeirðasvæðunum. Hún er með því að reyna að slá hulu yfir hryðjuverk sín.
Næsta stig málsins verður, að hinn svarti meirihluti lætur af stuðningi við stefnu hinna friðsamlegu mótmæla. Minnka munu áhrif Tutu biskups og annarra leiðtoga, sem vilja forðast ofbeldi. Aukið ofbeldi hinnar hvítu ríkisstjórnar mun framkalla svart ofbeldi.
Hingað til hefur borgarastyrjöldin í Suður-Afríku eingöngu geisað í hverfum og byggðum svarta fólksins. Þeir, sem fallið hafa, eru nærri eingöngu svartir. Þeir hafa ýmist verið drepnir af hryðjuverkasveitum lögreglunnar eða af andstæðum hópum svertingja.
Fyrri dæmi úr öðrum löndum Afríku benda til, að svartir menn í Suður-Afríku muni sækja rétt sinn með ofbeldi, þegar komið er í ljós, að hvíta ríkisstjórnin gefur hvergi eftir, heldur eykur hörkuna til að þjóna vaxandi ofbeldishyggju og þjóðrembu hvíta minnihlutans.
Kenyamenn og Zairemenn sóttu með ofbeldi sjálfstæði sitt í hendur hvíts minnihluta, sem neitaði að láta völdin af hendi. Á báðum stöðum færðu hinir svörtu ofbeldið heim til hvíta mannsins. Þeir færðu hryðjuverkin inn í hverfi og byggðir hvítra og inn á heimili þeirra.
Þessi gagnsókn er enn ekki hafin í Suður-Afríku. En hún er óhjákvæmileg, þar sem efnahagslegar refsiaðgerðir vesturlanda hafa leitt til aukinnar þjóðrembu og ofbeldisstefnu hvíta minnihlutans. Blóðbaðið í Suður-Afríku verður margfalt meira en það er nú.
Segja má, að refsiaðgerðirnar stuðli þannig óbeint að réttmætri valdatöku svarta meirihlutans í Suður-Afríku og séu þannig af hinu góða, þrátt fyrir blóðbaðið. En hin beinu áhrif eru ekki þau að knýja hvíta minnihlutann til að láta af ógnarstjórn, heldur eru þau þveröfug. Þær magna blóðbaðið.
Jónas Kristjánsson
DV