Reiðgötur í GPS-punktum

Hestar

Fyrir ári fór ég að færa reiðleiðir herforingjaráðskortanna í kerfi GPS-punkta. Því verki er lokið. Sexhundruð leiðir eru öllum aðgengilegar á vefnum jonas.is/reidleidir. Mikilvægt er að varðveita slíkar leiðir. Þær eru hluti af sögu okkar og meðal mikilvægustu fornminja landsins. Samt hefur þeim lítið verið sinnt. Fornleifafræðingar hafa bara áhuga á húsum og kumlum. Sumar reiðleiðir eru komnar undir bílvegi og aðrar horfnar í mýrum. Sumar hafa verið skornar sundur af skurðum og aðrar af girðingum. Víða má þó enn ríða góðar götur, sem riðnar hafa verið þindarlaust í ellefu aldir.