Reisa vörður á vegum hestamanna

Hestar

Fyrir tveimur árum söfnuðu Sigrún Bjarnadóttir í Fossnesi, Ragnar Ingólfsson í Heiðargerði og Páll Gunnlaugsson á Hamarsheiði, um sig 60 manna liði vina, kunningja og nágranna í Gnúpverjahreppi og víðar til að endurreisa gamlar vörður á Sprengisandsleið, sem upphaflega voru reistar árið 1906.

Félagið heitir Vörðuvinafélagið og hefur lagað og endurreist 260 vörður af 425 á þessari leið upp að Sóleyjarhöfðavaði í Þjórsá undir Hofsjökli. Félagið ætlar að ljúka verkinu sumarið 2006, þegar vörðurnar eiga aldarafmæli og ætlar að gera upp gömlu kofana í Bólstað, sem er frá árinu 1892, Kjálkaveri, frá 1894, og Gljúfurleit.

Þetta er mjög þarft framtak, því að vörður og torfkofar spillast á löngum tíma. Þetta eru ekki bara sagnfræðilegar minjar um samgöngur fyrri tíma, heldur einnig mikið öryggi fyrir hestaferðamenn nútímans, sem lenda í misjöfnum veðrum og misjöfnu skyggni eins og forverar þeirra, þegar þessir kofar og vörður voru upphaflega reist.

Allar endurreistu vörðurnar á Sprengisandsleið hafa verið hnitaðar í GPS-kerfinu og fara inn í gagnabanka, sem ferðamenn geta haft í GPS-tækjum sínum og verða á Íslandskorti fyrir hestaferðamenn, sem verið er að byggja upp á vef Landmælinga Íslands í samstarfi við Vegagerðina og Landssamband hestamannafélaga.

Sigrún Bjarnadóttir er formaður félagsins. Hún sagði Eiðfaxa, að vel hefði gengið á þessu ári. Stór hópur manna fór 2.-3. október og endurreisti vörður alla leið yfir Þjórsá á Sóleyjarvaði. Eftir eru nú vörður, sem eru nær byggð, frá Dalsá og fram fyrir Gljúfurleit.

Sigrún sagðist hafa reynt að hvetja aðra til að gera slíkt hið sama á sínum afréttum. Benti hún á Holtamenn, sem eiga afréttinn frá Sóleyjarvaði norður á sýslumörk og á Bárðdælinga, sem eiga afréttinn þar fyrir norðan. Á svæði þessara tveggja aðila er helmingur gömlu Sprengisandsleiðarinnar og þá sennilega um eða yfir 400 vörður, sem þarf að endurreisa.

Einnig sagðist hún ítrekað hafa rætt við Tungnamenn um, að þeim stæði nálægt að endurreisa vörður á Kjalvegi, sem er mörgum sinnum meira farin leið en Sprengisandur. Ekkert hefði komið út úr þessum tilmælum enn sem komið væri, en menn vissu af verkefninu.

Spurning er, hvort ekki er rétt fyrir hestamenn á viðkomandi svæðum að hafa frumkvæði að stofnun hliðstæðra hópa sjálfboðaliða, því engir hafa meira gagn af þessu framtaki en einmitt hestamenn. Raunar er það væntanlega Vegagerðin, sem á að sjá um viðhald þessara samgöngumannvirkja, því að vörðurnar voru reistar á vegum Stjórnarráðsins og Vegagerðarinnar. Vegagerðin gæti að minnsta kosti styrkt verkefnin fjárhagslega.

Vörðurnar á Sprengisandsvegi voru raunar meðal fyrstu verkefna íslenzkrar heimastjórnar. Fengnir voru þrír Bárðdælingar, Eiríkur Sigurðsson frá Sandhaugum, Jón Þorkelsson frá Jarlsstöðum og Jón Oddsson, sem hafði verið í fjallaferðum með Daniel Bruun og fleirum. Þeir vörðuðu alla leiðina sumarið 1906. Til er frásögn af verkinu og er einkum þekktur kaflinn um hrakningar þeirra með hestakerru, sem hvolfdi, er þeir fóru yfir Sóleyjarhöfðavað, þegar Þjórsá var í vexti.

Vörðurnar á Kjalvegi hinum vestri, sem hestaferðamenn nota núna, liggja með Fúlukvísl og vesturfjöllum. Þær eru rúmlega áttræðar, voru síðast endurhlaðnar og reistar að nýju sumrin 1920-1922 á vegum vegamálastjóra. Verkið vann Halldór Jónasson frá Hrauntúni með ýmsum samverkamönnum. Ekki eru sagðar neinar sögur af hrakningum við þá vinnu, en margar vörðurnar standa enn og eru hinar stæðilegustu sumar hverjar.

Enn reisulegri eru vörðurnar á Kjalvegi hinum eystri, sem liggur þvert yfir Kjalhraun. Þær eru tveggja metra háar og hafa ílanga steinnibbu, sem vegvísi til norðurs, svo að vegfarendur í þoku og myrkri þurfa ekki að velkjast í villu um réttar áttir. Þessar vörður eru taldar hafa verið reistar rétt fyrir aldamótin 1900 og hafa verið óhreyfðar síðan, enda vel hlaðnar úr nærtæku hraungrýti. Þær eru með 70-150 metra millibili og eiga að geta veitt Reynistaðabræðrum framtíðarinnar mikið öryggi.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 10.tbl. 2004