Reka, svelta, hóta, flytja, afnema

Punktar

MANNRÉTTINDASTOFA fær ekki lengur fjármagn frá ríkinu, af því að ráðherrum utanríkis- og dómsmála þykir hún of sjálfstæð í greinargerðum um mannréttindi. Annars staðar á Norðurlöndum eru mannréttindastofur opinberar stofnanir. Dómsmálaráðuneytið hefur fallizt á að styðja ákveðin mál á vegum Mannréttindastofu, en ákveður sjálft, hvaða mál það séu.

SAMKEPPNISSTOFNUN er lögð niður og forstjóri hennar aflagður, af því að stofnunin sótti málið gegn olíufélögunum á leiðarenda. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra taldi ófært, að opinber stofnun ofsækti gæludýr kerfisins, leifar kolkrabba og smokkfisks, með þessum hætti. Með nýjum lögum er verið að búa til nýjar stofnanir með öðru og þægara starfsfólki.

ÞJÓÐHAGSSTOFNUN var lögð niður og forstjóri hennar hrakinn út fyrir að leggja sjálfstætt mat á þjóðarhag. Fjármálaráðherra og þáverandi forsætisráðherra taldi ófært að sæta álitsgerðum, sem ekki fóru að öllu leyti saman við skoðanir fjármálaráðuneytisins á stöðu þjóðarbúsins. Lausnin var sú að leggja stofnunina niður og reisa enga í staðinn.

VEIÐISTOFNUN var flutt til Akureyrar, af því að forstjóri hennar neitaði að reka starfsmann, sem þáverandi ráðherra stofnunarinnar og núverandi formaður Samfylkingarinnar heimtaði að yrði rekinn fyrir að skrifa grein, sem var andstæð stefnu ráðherrans. Samfylkingin er að þessu leyti hliðstæð stjórnarflokkunum að heimta skilyrðislausa hlýðni.

NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN hefur verið svelt í peningum, af því að forstjóri hennar er leiðindakrati, sem hefur vasast í pólitík. Hún mun áfram verða svelt, þangað til kominn er í forstjórastólinn maður úr stjórnarflokkunum, sem nýtur trausts valdahafanna. Það er talið ótækt að leggja fé til ríkisstofnunar, sem stjórnað er af leiðinlegum krata.

UMBOÐSMAÐUR ALÞINGIS fékk símleiðis yfirhalningu þáverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra, þar sem honum var hótað eins konar handrukkun, ef hann hagaði sér ekki eins og ráðherrann taldi heppilegt. Umboðsmaðurinn var svo skelkaður, að hann leitaði sér áfallahjálpar.

OFBELDISHNEIGÐ er að baki allra þessara mála. Ráðherrar telja, að embættismenn eigi allir að tala einum rómi og eru óhræddir við að misbeita ríkisvaldinu að því markmiði. Mannréttindastofa og málefni hennar eru nýjasta fórnardýr stefnunnar.

DV